Endurbætur við Gunnuhver vel á veg komnar
Framkvæmdir við endurbætur á aðgengi fyrir ferðamenn við Gunnuhver eru komnar vel á veg og verður lokið snemma sumars.
Sigurður B. Sigurðsson hjá Grindverk ehf. í Grindavík hefur séð um endurbæturnar sem hafa tekist mjög vel. Hann lagaði m.a gamla bílastæðið að austanverðu og gerði göngustíg í gegnum svæðið til vesturs, setti saman öfluga göngubrú yfir gamla veginn þar sem hann fór í sundur og lagði síðan göngustíg að nýju snúningstæði fyrir bíla og rútur að austanverðu. Einnig voru lagðir leiðarar eða handrið með göngustígum.
Nú eru útboðsgögn vegna útsýnispalls hjá nokkrum verktökum á svæðinu og stefnt er að því að pallurinn verði tilbúinn undir mánaðarmót.
Almannavarnir lokuðu svæðinu af öryggisástæðum fyrir tveimum árum eftir að aukin virkni hljóp í hverinn með þeim afleiðingum að hann breiddi úr sér, eyðilagði útsýnispall og tók í sundur veginn.
Framkvæmdin er unnin í samvinnu Ferðamálasamtaka Suðurnesja, Grindavíkurbæjar og HS Orku.
Á myndinni eru Guðbjörg Eyjólfsdóttir, formaður umhverfisnefndar Grindavíkur og Sigurður B. Sigurðsson, verktaki við Gunnuhver. Mynd/www.grindavik.is
----