Endar slökkvistöðin á Keflavíkurflugvelli?
– samþykkt að ráðast í faglega úttekt á húsnæðismálum
Stjórn Brunavarna Suðurnesja [BS] samþykkti nýverið að fara í úttekt á húsnæðismálum Brunavarna Suðurnesja. Í vor gerði þáverandi stjórn kauptilboð upp á röskar 40 milljónir í fasteign að Njarðarbraut 11 í Reykjanesbæ. Seljandi samþykkti tilboðið en hins vegar hafa aðildarsveitarfélög Brunavarna Suðurnesja ekki öll samþykkt kaupin. Garður og Vogar hafa samþykkt en málið er enn að veltast um stjórnsýsluna í Reykjanesbæ.
Ný stjórn er kominn yfir Brunavarnir Suðurnesja eftir bæjarstjórnarkosningar í vor og nú fer Kristján Jóhannsson fulltrúi Reykjanesbæjar með formennsku í stjórninni. Á fundi stjórnar BS nýverið var farið yfir húsnæðismál slökkviliðsins og velt upp ýmsum möguleikum.
Þeir möguleikar sem eru í stöðunni er að byggja nýtt hús, ráðast í viðbyggingu við núverandi aðstöðu að Hringbraut 125, ganga frá kaupum á Njarðarbraut 11 eða flytja slökkvistöðina á Keflavíkurflugvöll.
Brunavarnir Suðurnesja geta fengið aðstöðu í slökkvistöðinni á Keflavíkurflugvelli en Isavia fyrirhugar að byggja nýja þjónustumiðstöð þar sem flugvallarslökkviliðið mun fá aðstöðu. Sú aðstaða verður þó ekki klár fyrr en árið 2017.
Stjórn BS hefur samþykkt að ráðast í faglega úttekt á húsnæðismálum og hefur því óskað eftir því við bæjarráð aðildarsveitarfélaga að fá fjárveitingu til að kosta úttektina sem síðan verður lögð fyrir bæjarráðin.