Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Elsti íbúi Suðurnesja fékk fyrstu bólusetninguna
María Arnlaugsdóttir, 99 ára og elsti núlifandi Suðurnesjamaðurinn fékk fyrst allra almennra bæjarbúa bólusetningu. VF-myndir/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 29. desember 2020 kl. 17:18

Elsti íbúi Suðurnesja fékk fyrstu bólusetninguna

„Þetta er stór dagur hjá okkur og öllum Íslendingum. Við höfum beðið þessa dags allt þetta ár. Vonandi gengur þetta vel á næstu vikum og mánuðum, að bólusetja fólk fyrir Covid-19. Ég á ekki von á öðru en þetta snýst auðvitað um það hversu hratt og mikið bóluefni við fáum til Íslands,“ segir Sveinbjörg Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en bólusetning fyrir veirunni hófst á Suðurnesjum í dag, 29. sesember.

Framlínufólk í heilbrigðisþjónustu var fyrst í röðinni í bólusetningu og fékk Kristín Sigurmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur á HSS fyrst stungu í handlegginn. Fleiri starfsmenn HSS fylgdu í kjölfarið, læknar og hjúkrunarfólk en síðan var farið á Hlévang, Hrafnistu en þar var fyrsti almenni Suðurnesjamaðurinn bólusettur. Það var hún María Arnlaugsdóttir en hún verður 100 ára í júní á næsta ári. Aðrir vistmenn á Hlévangi fengu síðan sprautu í kjölfarið. Starfsmenn HSS fóru síðan á hjúkrunarheimilið á Nesvöllum í Njarðvík og þar fékk Jón Ísleifsson, 91 árs fyrrverandi bankastjóri Útvegsbankans í Keflavík, fyrstur bólusetningu. Í kjölfarið fengu aðrir íbúar þar bólusetningu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Tilfinningin er góð og ekkert til að kvíða fyrir. Ég segi bara loksins og þetta er stór stund,“ sagði Kristín Sigurmundsdóttir við VF þegar hún hafði verið sprautuð. María og Jón brostu bæði breitt eftir að þau höfðu verið bólusett á Hrafnistu.

Skammtarnir sem fengust í þetta fyrsta skipti munu nægja til að bólusetja framlínufólk HSS og vistfólk á Nesvöllum, Hlévangi og Víðihlíð og er því verki lokið.

Víkurfréttir fylgdu starfsmönnum HSS sem koma að málum Covid-19. Það varð fögnuður þegar bóluefni kom í hús um hádegisbilið og eftir að því hafði verið komið í sprautur eftir blöndun var farið í að bólusetja fólk. Næsta sending bóluefnis ætti að berast til landsins um miðjan janúar og verður þá haldið áfram að bólusetja fólk í áhættuhópum.

Víkurfréttir sýna frá Covid bólusetningum, komu bóluefnis og sýnatöku í næsta þætti Suðurnesjamagasín, 6. janúar 2021.

Kristín Sigurmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur á HSS fékk fyrst allra á Suðurnesjum bólusetningu. 

Jón Ísleifsson, 91 árs íbúi á hjúkrunarheimilinu Nesvöllum fékk fyrstur íbúa þar bólusetningu.