Ellert vinnur þrenn verðlaun í alþjóðlegri ljósmyndakeppni
Ellert Grétarsson, ljósmyndari Víkurfrétta, vann til þrennra aðalverðlauna í gærkvöldi þegar úrslitin voru tilkynnt í alþjóðlegu PX3 ljósmyndakeppnninni í París.
Ellert sigraði í flokki atvinnumanna í náttúruljósmyndum fyrir myndröð sína Colors of the Nature sem sýnir náttúrufegurð háhitasvæðanna í Krýsuvík. Hann hlaut einnig fyrstu verðlaun í flokknum Nature – Earth fyrir þessa sömu myndröð.
Þá fékk Ellert fyrstu verðlaun fyrir myndröð sína af glitskýjum yfir Íslandi í flokknum Nature – Sky.
Þess má geta að hann hlaut heiðursviðurkenningu fyrir glitskýjaseríuna við veitingu International Photography Awards verðlaunana á síðasta ári þar sem hann hlaut alls þrjár heiðursviðurkenningar fyrir náttúruljósmyndun í flokki atvinnumanna. Eitt settið af þeirri myndröð er í eigu Listasafns Reykjanesbæjar.
Vinningsmyndirnar úr PX3 keppninni verða á næstunni settar upp á sýningu í Acte2 Gallery í París.. Samhliða sýningunni verður gefin út vegleg ljósmyndabók.
Í dómnefndinni voru 17 manns en hana skipa m.a. þekktir galleríistar og sýningarstjórar frá New York, París og Ítalíu auk myndstjóra frá tímaritum á borð við TIME og Digital Photographer.
Úrslitin í keppninni má sjá hér: http://px3.fr/winner/?compName=PX3+2008