ELLERT HRÓSAR BÍÓMENNINGU
Sunnlendingar hafa mikinn áhuga á að innleiða bíómenningu með því að setja upp alvöru kvikmyndasal á Selfossi. Hafa þeir horft mjög til Suðurnesja en Nýja bíó í Keflavík var nýlega endurnýjað og þar innréttaður einn fullkomnasti kvikmyndasalur landsins.Ellert Eiríksson bæjarstjóri í Reykjanesbæ ávarpaði fund á Selfossi um þarsíðustu helgi þar sem hann sagði áhrifin af breytingum Nýja bíós í Keflavík væru ótrúleg á ekki lengri tíma. Stórlega hafi dregið úr bíóferðum til Reykjavíkur og meira líf væri í miðbænum á kvöldin, jafnt virka daga sem um helgar. Hann sagði að kaffihús og veitingastaðir fyndu fyrir auknum viðskiptum vegna þess að fólk heldur sig í bænum.Nýja bíó var endurnýjað og búið fullkomnasta búnaði sem völ er á. Ellert sagði það enga spurningu að slíkt væri skilyrði þess að unga fólkið vildi sækja bíóhús á heimaslóðum. Víkurfréttir höfðu samband við Davíð Jónatansson bíóstjóra Nýja bíós. Hann staðfesti að aukningin væri 400% frá sama tíma í fyrra, sem þó hafi verið góður tími, þar sem bæði Titanic og kvikmynd Spice Girls voru sýndar þá. Nú eru kvikmyndasýningar alla daga en virka daga er sýnt kl. 5 og 9. Að sögn Davíðs er fyrri sýningin virka daga til að koma til móts við forelda og þannig að unglingar geti virt útivistartíma. Yngra fólkið komi því í fimmbíó en þeir eldri á kvöldin.