Ellen og Óðinn tóku fyrstu skóflustungurnar
Ellen Hilda Sigurðardóttir og Óðinn Hrafn Þrastarson, bæði 7 ára og væntanlegir nemendur við nýjan skóla í Innri Njarðvík, Reykjanesbæ, taka fyrstu skóflustungu að byggingunni nýs grunnskóla í Innri Njarðvík með aðstoð Árna Sigfússonar, bæjarstjóra og formanns fræðsluráðs nú áðan.
Eignarhaldsfélagið Fasteign hf., sem Reykjanesbær er aðili að, byggir skólann sem tekur mið af teikningum Heiðarskóla í Reykjanesbæ. Teikningar eru síðan aðlagaðar hugmyndum um “opinn skóla” þar sem mikið er lagt upp úr einstaklingsmiðuðu námi með opnu rými og samstarfi kennara um tiltekin heimasvæði.
Fjögur nöfn hafa komið til tals á skólann, Tjarnaskóli, Seyluskóli, Akurskóli og Thorkiliskóli. Að athöfn lokinni nú áðan var boðið upp á kakó og rjómatertu sem skreytt var þessum nöfnum. Það vakti athygli að nafnið Akurskóli var skilið eftir, en hinum var skolað niður í maga með rjúkandi kakói. Hvort þetta eru einhver skilaboð um hvaða nafn skuli notað skal ósagt látið.