Ellefu óku of hratt
Lögreglan á Suðurnesjum kærði ellefu ökumenn fyrir of hraðan akstur í vikunni. Tólf ökumenn til viðbótar gerðust brotlegir við umferðarlög með öðrum hætti.
Sá, hinna ellefu, sem hraðast ók, mældist á 150 kílómetra hraða á Reykjanesbraut, þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund. Þar var á ferðinni erlendur ferðamaður.
Níu ökumenn lögðu bifreiðum sínum ólöglega, flestir uppi á gangstétt. Þá virtu tveir ekki stöðvunarskyldu og einn talaði í farsíma meðan hann ók, án þess að nota handfrjálsan búnað.