Eldur við leikskóla í Innri Njarðvík
Eldur kom upp í tækjageymslu á lóð leikskólans Akurs í Innri Njarðvík í gærkvöldi. Útkall barst Brunavörnum Suðurnesja rétt fyrir kl. 21 í gærkvöldi. Slökkvilið sendi einn slökkvibíl á vettvang og lögregla sendi einnig fjölmennt lið og var lokað á umferð um Tjarnabraut á meðan slökkviliðið athafnaði sig á brunavettvangi.
Fljótlega tókst að slökkva eldinn. Talsvert tjón varð á húsinu sem stendur á lóð leikskólans, nokkra metra frá leikskólanum sjálfum.
Víkurfréttir hafa ekki upplýsingar um eldsupptök.