Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Eldur um borð í Sóleyju Sigurjóns GK
    Mynd: Landhelgisgæslan
  • Eldur um borð í Sóleyju Sigurjóns GK
Þriðjudagur 22. september 2015 kl. 17:29

Eldur um borð í Sóleyju Sigurjóns GK

Rétt fyrir hádegi í dag barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar tilkynning frá togaranum Sóleyju Sigurjóns GK um að mikill reykur og hiti væri í vélarrými togarans og hugsanlegur eldur. Sögðust skipverjar hafa náð að loka á allan aðgang að vélarrými og setja slökkvikerfi vélarrýmis í gang. Togarinn Sóley Sigurjóns GK, sem er tæplega 800 tonn að stærð og um 45 metrar á lengd, var staddur um 25 sjómílur norðvestur úr Sauðanesi við rækjuveiðar. Um borð voru átta skipverjar, segir á vef Landhelgisgæslunnar.

Þá þegar kallaði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar út tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar og með annarri þeirra voru sendir reykkafarar frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Hélt þyrlan TF-LIF áleiðis á vettvang meðan hin þyrlan var sett í viðbragðsstöðu. Einnig voru björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Siglufirði og Skagaströnd kölluð út. Þá var flugvél Landhelgisgæslunnar send á vettvang en hún var í eftirlitsflugi út af Austfjörðum. Flugvélin er búin sértækri hitamyndavél sem getur greint hita á yfirborði þilfars og á síðum skipa. Auk þess var ákveðið að senda varðskipið Þór áleiðis á vettvang en varðskipið var statt við Snæfellsnes. Haft var samband við nærliggjandi skip og báta og var afráðið að línuskipið Tómas Þorvaldsson sem statt var í innan við klukkustundar fjarlægð frá Sóleyju Sigurjóns héldi á staðinn.



TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar var komin á vettvang yfir togaranum kl. 12:48 og tilkynnti áhöfn hennar að mikill hiti sæist umhverfis útblástursrör vélarrýmisins. Um klukkan 13:00 töldu skipverjar á Sóleyju Sigurjóns að þeir hefðu ráðið niðurlögum eldsins og ætluðu að freista þess að komast inn í vélarrýmið til að setja ljósavél í gang. Ákveðið var að TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar héldi áfram með reykkafara til að aðstoða við reyklosun í vélarrými skipsins. Reykkafarar ásamt sigmanni Landhelgisgæslunnar voru komnir um borð rétt fyrir klukkan tvö og um svipað leyti kom björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar frá Siglufirði á staðinn. Slökkvilið Fjallabyggðar hafði til reykblásara sem þyrlan var tilbúin að flytja út í togarann ef á þyrfti að halda.

Skipverjar á Sóleyju Sigurjóns komu ljósavélinni í gang með aðstoð reykkafaranna en nánari skoðun leiddi í ljós að ekki væri hægt að koma aðalvél skipsins í gang vegna brunaskemmda. Var þá afráðið í framhaldinu eða um klukkan 16:00 að línuskipið Tómas Þorvaldsson aðstoðaði við að draga Sóleyju Sigurjóns til hafnar á Akureyri eftir að skipin væru búin að hjálpast að við að ná rækjutrollinu upp. Frekari aðstoð björgunarskipa Slysavarnarfélagsins Landsbjargar var þá afþökkuð, þyrla Landhelgisgæslunnar sótti reykkafarana og sigmanninn um borð og varðskipinu Þór var snúið við.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024