Eldur logaði í sameign fjölbýlishúss

- lögreglan óskar eftir að vitni gefi sig fram

Eldur var borinn að sameign fjölbýlishúss við Skógabraut 1109 á Ásbrú í Reykjanesbæ á fimmta tímanum í dag. Tilkynnt var um eldinn til Neyðarlínunnar um kl. 16:30 og var þá slökkvilið Brunavarna Suðurnesja kallað til ásamt lögreglu.
 
Eldur logaði í sameigninni og virðist sem hann hafi verið kveiktur í eða við póstkassa í húsinu. 
 
Talsvert tjón varð af völdum elds og reyks í sameigninni en slökkvilið lauk vinnu á vettvangi á tæpri klukkustund. Slökkvistarfið gekk vel en svo þurfti að reykræsta sameignina.
 
Lögreglan á Suðurnesjum fer með rannsókn málsins. Í samtali við Víkurfréttir nú undir kvöld óskaði lögregla eftir því að hugsanleg vitni að atvikinu gefi sig fram. Hægt er að hafa samband við lögreglu í síma 444 2200 eða með skilaboðum í gegnum fésbókarsíðu Lögreglustjórans á Suðurnesjum.
 
Meðfylgjandi myndir voru teknar síðdegis þegar slökkvistarf stóð yfir. VF-myndir: Hilmar Bragi