Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Eldur kom upp í orkuveri í Svartsengi
Þriðjudagur 6. apríl 2021 kl. 19:21

Eldur kom upp í orkuveri í Svartsengi

Eldur kviknaði í vélarbúnaði í Orkuveri 3 hjá HS Orku í Svartsengi seinnipartinn í dag. Orkuverið var mannlaust þegar eldurinn braust út og var fólki engin hætta búin. 

Starfsmenn HS Orku brugðust skjótt við, lokuðu svæðið af og kölluðu til slökkviliðið í Grindavík sem réði niðurlögum eldsins á skömmum tíma. Eldurinn var ekki mikill og einangraður og því lítil hætta á því að hann myndi breiðast út. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ekki er vitað með fullri vissu hver upptök eldsins eru að svo stöddu en talið er að lega hafi brotnað í vélinni sem leiddi til þess að það kviknaði í. Starfsmenn HS Orku munu í framhaldinu fara yfir málið. Viðbrögð starfsmanna HS Orku virðast hafa verið hárrétt og komu í veg fyrir að meira tjón hlytist af, segir í fréttatilkynningu frá HS Orku. 

Ekki er gert ráð fyrir því að þetta muni hafa áhrif á framleiðslu HS Orku á raforku eða heitu og köldu vatni að öðru leyti en því að framleiðsla vélar í Orkuveri 3 mun stöðvast um tíma á meðan unnið er að úrbótum.  

Athafnasvæði HS Orku í Svartsengi samanstendur af sex orkuverum sem framleiða raforku og heitt vatn. Þau hafa verið byggð upp frá árinu 1977 og fram til 2008 þegar nýjasta orkuverið var tekið í notkun. Orkuver 3, þar sem eldurinn kom upp, var gangsett í lok árs 1980. Í orkuverinu er mótþrýstigufuhverfill með uppsett afl uppá 6 MW.