Eldur í stóru timburhúsi í Keflavík – „Maður er í sjokki eftir svona“
Eldur kom upp í tveggja hæða timburhúsi við Bragavelli 7 í Keflavík í nótt. Húseigendum tókst að slökkva eldinn með slökkvitækjum en hann er talinn hafa komið út frá raflögnum. Verulegar skemmdir urðu á klæðningu og svalahurð á efri hæð er eins og kolamoli eftir brunann en eldurinn barst upp eftir húsinu og þegar heimilisfólkið vaknaði í nótt horfði það á eldsúlur upp að mæni hússins.
Eftir á er þetta mikið sjokk og ömurlegt að lenda í svona en sem betur fer fór þetta vel,“ sagði húseigandinn, Steinþór Jónsson, í samtali við Víkurfréttir en hann slökkti eldinn með þremur slökkvitækjum sem hann var með í húsinu með góðri hjálp Hildar konu sinnar sem hljóp eftir tækjunum sem hún passar alltaf vel upp á. Önnur tveggja dætranna í húsinu svaf í herberginu rétt við svalahurðina þar sem eldurinn logaði í og fyrir utan.
Lögregla og slökkvilið komu á staðinn og fóru yfir aðstæður en ljóst er að litlu hefði mátt muna að eldurinn hefði fest sig í veggjum hússins og þá hefði getað farið miklu verr en þau sluppu öll án meiðsla.
Á efri myndinni sést hvernig svalahurðin er eftir brunann. Á neðri myndinni sjást aðstæður að utanverðu.
Nánar í Víkurfréttum á morgun.