Eldur í ruslagámi barst í íbúðarhúsnæði
Eldur kom upp í þremur ruslagámum í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum um helgina. Í einu tilvikinu hafði kviknað í ruslagámi við íbúðarhúsnæði í Sandgerði með þeim afleiðingum að eldurinn læsti sig í húsnæðið.
Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Suðurnesja mættu á vettvang en þá hafði húsráðendum tekist að slökkva eldinn sem einungis virtist hafa valdið tjóni utan húss.
Þá kviknaði í ruslagámi í Njarðvík og öðrum í Keflavík. Slökkvilið var kallað út í báðum tilvikum.