Eldur í Blíðu SH í Njarðvíkurslipp
Eldur kom upp í Blíðu SH 277 í hádeginu. Skipið er í slipp hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur þar sem það hefur verið til viðgerða. Undirbúningur fyrir sjósetningu skipsins stóð yfir þegar skipstjórinn varð þess var að reyk lagði frá vélarrými.
Öllum rýmum var lokað og skrúfað frá slökkvikerfi skipsins. Það slökkti eldinn.
Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var jafnframt kallað út. Fjölmargir urðu varir við ferðir slökkviliðsins sem þurfti að fara í gegnum nokkuð þétta umferð á leið sinni að Skipasmíðastöð Njarðvíkur. Nýr slökkvibíll er bæði með háværa sírenu og flautu sem var ítrekað notuð á leiðinni á vettvang.
Slökkviliðsmenn reykræstu vélarrýmið en þegar þetta er skrifað er ekki ljóst hversu miklar skemmdir eru af völdum eldsins. Ekki er heldur vitað hvernig hann kom upp en ekkert rafmagn var á skipinu þegar eldsins varð vart. Rafmagnstenging við skipið hafði verið aftengd, enda átti að fara að sjósetja skipið.
Myndirnar eru frá vettvagni nú í hádeginu. VF-myndir: Hilmar Bragi