Eldur í bensíngufum á Fitjum
Eldur blossaði upp í bensíngufum þegar unnið var að dælingu á bensíni úr tankbifreið frá Skeljungi við bensínstöð Orkunnar á Fitjum nú áðan.
Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var kallað til ásamt lögreglu. Þegar slökkvilið kom á vettvang hafði slökknað í eldinum.
Tankbíll með tengivagn, sem var fullur af eldsneyti, var tengdur við eldsneytistankana á Fitjum. Bílstjórinn brást hratt við og ók bílnum í örugga fjarlægð.
Ekkert tjón varð við atvikið en talsverð hætta skapaðist um tíma. Lögreglan á Suðurnesjum vinnur að rannsókn en hugsanlegt er að stöðurafmagn hafi kveikt eldinn. Tankbíllinn var þó tengdur með jarðtengingu við tankana sem verið var að dæla bensíni á.
VF-myndir: Hilmar Bragi
Eldurinn logaði um tíma í bensíngufum við einn af þessum stútum.