Eldur á skrifstofu skólastjórans
Eldur kom upp í rafmagnstöflu á skrifstofu skólastjóra í Háaleitisskóla í Reykjanesbæ á ellefta tímanum í morgun.
Húsvörður skólans var fljótur á vettvang og hafði slökkt eldinn þegar slökkvilið Brunavarna Suðurnesja kom á staðinn.
Ármann Árnason, varðstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja, þakkar skjótum viðbrögðum húsvarðarins að ekki fór verr en eldurinn var að byrja að læsa sig í loft á skrifstofunni þegar að var komið.
Hlutverk slökkviliðs var því að ganga úr skugga um að allur eldur væri slökktur og reykræsta bygginguna.