Eldsvoði í gamla bænum
Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var kallað út um hádegisbilið í gær vegna bruna í húsi við Vallargötu í Keflavík. Talsverður eldur og reykur mætti slökkviliðsmönnum þegar þeir komu á vettvang. Greiðlega gekk að slökkva eldinn en hann hafði borist á milli hæða og voru skemmdir umtalsverðar. Eldsupptök voru í stigahúsi og er talið líklegt að logandi kerti hafi átt sökina en það hefur ekki verið staðfest. Ekki urðu nein slys á fólki.