Eldsupptök enn óljós
Það er hreint með ólíkindum að lesa vitleysuna sem vellur upp úr fólki í bloggheimum. Í kjölfar fréttar sem birtist í vikunni um að það snjóaði í Argentínu fór fólk að blogga um fréttina og ekki er öll vitleysan eins.
Einn bloggari, sem státar sig af áratuga reynslu í fjölmiðlun, segir á blogginu sínu að það séu ótrúlegar fréttir sem berist frá Suður-Ameríku, þar sé frost og það snjói í Argentínu. Á sama tíma sleiki sólin fólk hér á landi með góðum hita. Svo hittir bloggarinn naglann á höfuðið: „Það skyldi þó ekki vera hlýnunin sem er hér á norðurhveli jarðar, valdi því að það kólni á suðurhveli“ spyr bloggarinn og endar svo með því að segja að fari svo muni sólþyrstir flykkjast hingað og þá alveg eins frá þessum löndum þarna fyrir sunnan.
Það er þó gott að vita til þess að bloggarinn talar um norðurhvel og suðurhvel jarðar, en virðist ekki átta sig á því að nú er hásumar á norðurhveli sem þýðir hávetur á suðurhveli.
Þegar sumarsólstöður voru hjá okkur þann 21. júní og dagur hvað lengstur hjá okkur, þá má segja að það hafi ríkt „desember-ástand“ á suðurhveli. Þannig að þann 21. desember, þegar varla birtir hjá okkur, skulum við hugsa til þeirra í Argentínu, þegar þar verður hásumar.
Þannig að svarið við spurningu bloggarans, sem hljómaði svona: „Það skyldi þó ekki vera hlýnunin sem er hér á norðurhveli jarðar, valdi því að það kólni á suðurhveli“ er jú, af því að hér er sumar, en þar er vetur.
Það er ekki öll vitleysan eins...
.