Eldsneytisflutningar eftir vegaröxl?
Vegaraxlir Reykjanesbrautar eru ekki ætlaðar fyrir umferð ökutækja. Þær eru ekki byggðar til að þola mikinn þunga. Áhorfendum á fréttatíma Stöðvar 2 var því mjög brugðið í kvöld þegar þar var sýndur stór eldsneytisflutningabíll frá Skeljungi á leið til Suðurnesja og ók hann úti á öxlinni. Ætla má að flutningabíllinn hafi verið fulllestaður af eldsneyti og því tugir tonna. Ekki þarf að spyrja að leikslokum ef eitthvað fer úrskeiðs við aksturinn á öxlinni, sem er ekki hönnuð fyrir akstur slíkra bíla.
Umferðarstofa hefur tekið saman minnisblað um akstur á vegaröxlum Reykjanesbrautar og er það birt á vef stofnunarinnar. Minnisblaðið varðar ákvæði umferðarlaga um heimild bifreiðarstjóra, sem aka um Reykjanesbraut, til þess að víkja af akbrautinni út á vegaröxl og aka eftir vegaröxlinni til þess að hleypa umferð fram hjá og aka síðan aftur inn á akbrautina. Minnisblaðið er frá þeim tíma sem Brautin var án tvöföldunar. Þar segir m.a.:
Þjóðvegir - Vegaröxl.
Þjóðvegir hér á landi utan þéttbýlis, sem eru með bundnu slitlagi, eru flestir þannig byggðir að akbrautin nær yfir mestan hluta vegarins, ein akrein í hvora átt. Akbrautinni er skipt langsum með miðlínu og öðrum merkilínum á yfirborði akbrautar. Svæðið við vegarbrún, utan við bundið slitlag, er víðast hvar mjó malborin ræma sem sjaldnast er nægilega breið til þess að leggja þar ökutæki og jaðar akbrautar er yfirleitt ekki markaður með kantlínu.
Reykjanesbrautin er dæmi um þjóðveg þar sem veginum er skipt í akbraut og vegaröxl. Á akbrautinni er ein akrein í hvora átt og eru akreinarnar aðgreindar með miðlínu og öðrum merkilínum á sama hátt og á öðrum þjóðvegum. Mörk akbrautar og vegaraxlar er á Reykjanesbrautinni merkt með brotinni kantlínu í samræmi við ákvæði reglugerðar. Á Reykjanesbraut eru vegaraxlir nægilega breiðar til þess að þar megi aka bifreið. Hönnun vegarins sýnist beinlínis gera ráð fyrir að vegaraxlirnar séu notaðar fyrir umferð ökutækja. Verður að ætla að tilgangurinn með þeirri ráðstöfun hafi fremur verið að beina ökumönnum út á vegaröxl í undantekningartilvikum, til þess að hleypa öðrum fram hjá, allt í þeim tilgangi að auka umferðaröryggi þegar ekið er fram úr. Líklega hefur sú ráðstöfun helgast af því að ekki sé mikil umferð gangandi vegfarenda og hjólreiðamanna um vegaraxlirnar.
Umferðarlögin - Vegaröxl.
Í 2. gr. umferðarlaganna eru skilgreind ýmis orð og hugtök sem koma fram í lögunum. Þar er akbraut skilgreind sem sá hluti vegar sem ætlaður er fyrir umferð ökutækja.
Skilgreining á vegaröxl kemur ekki fram í 2. gr. laganna en í 1. mgr. 11. gr. kemur fram að vegaröxl er sá hluti vegar sem er utan akbrautar og er ekki ætlaður fyrir umferð ökutækja.
Vegaröxl er fyrst og fremst svæði fyrir umferð gangandi vegfarenda en einnig öryggissvæði fyrir ökutæki sem þarf að stöðva t.d. vegna bilunar.
Í niðurstöðum Umferðarstofu segir: Bifreiðastjórum er heimilt samkvæmt umferðarlögunum að hleypa umferð fram hjá sér með því að aka af akbraut út á vegaröxl enda sýni þeir ýtrustu varúð og aki varlega. Jafnframt má vera ljóst að þeim er ekki heimilt að aka áfram eftir vegaröxlinni, annað hvort skal aka strax inn á akbrautina eða nema staðar. Þegar ekið er af vegaröxl inn á akbrautina, skal víkja fyrir umferð um akbrautina. Vegaröxl er samkvæmt umferðarlögunum, eins og þegar hefur verið lýst, fyrst og fremst svæði fyrir gangandi vegfarendur en auk þess öryggissvæði fyrir ökutæki sem t.d. þarf að stöðva vegna bilunar. Landið, sem Reykjanesbrautin liggur um, er víða úfið hraun þar sem erfitt er um vik að víkja af akbrautinni, t.d. ef ökutæki bilar. Umferð um brautina er með þeim hætti að stórhættulegt er að skilja þar eftir ökutæki á akbrautinni. Það fer ekki saman að nota vegaraxlir á Reykjanesbraut fyrir gangandi vegfarendur, fyrir hjólreiðamenn, sem öryggissvæði og sem akbraut, allt í senn.
Myndirnar eru fengnar úr útsendingu á kvöldfréttatíma Stöðvar 2 í kvöld.