Eldri borgarar áhugasamir um fjölþætta heilsurækt
Húsfyllir var á Nesvöllum síðastliðinn þriðjudag þegar verkefni, sem snýr að fjölþættri heilsurækt í Reykjabæ fyrir 65 ára og eldri, var kynnt.
Markmið verkefnisins snýr að skipulagðri heilsurækt svo eldri einstaklingar geti sinnt athöfnum daglegs lífs eins lengi og kostur er, geti búið lengur í sjálfstæðri búsetu, geti komið í veg fyrir eða seinkað innlögn á dvalar- og hjúkrunarheimili og eigi möguleika á því að starfa lengur á vinnumarkaði, þátttakendum að kostnaðarlausu.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segist afar ánægður með verkefnið og vonast til að þátttakan verði góð, en hann hélt kynningu í upphafi fundarins.
Dr. Janus Guðlaugsson, upphafsmaður verkefnisins, segir fundinn hafa gengið vel og að fólk hafi verið einstaklega áhugasamt. „Það þarf að hafa bæði þor og kjark á efri árum til að breyta og bæta eigin lífsstíl. Að geta gert slíkt í samvinnu við aðra í góðum félagsskap er lykilatriði. Skilaboðin til hinna eldri voru mjög skýr þar sem við erum tilbúin að vísa þeim veginn að bættri heilsu með markvissri þjálfun og fræðsluerindum. Einnig munum við meta stöðu hópsins og hvers og eins þeim að kostnaðarlausu. Markmiðið er síðan að gera þau, óháð okkur, sjálfbær á eigin þjálfun og æskilega næringu, þó við séum til staðar. Þannig geta þau áfram notið þess besta sem bærinn og samfélagið hefur upp á að bjóða eins lengi og kostur er.“
Janus segir skráninguna hafa verið mjög góða, en henni lýkur 26. maí og geta áhugasamir fengið nánari upplýsingar við þjónustuborðið að Nesvöllum.