Eldgosasvæðið í Meradölum er opið
Eldgosasvæðið í Meradölum er opið. Vinsamlega kynnið ykkur leiðbeiningar á safetravel.is á slóðinni: https://safetravel.is/uncategorized-is/upplysingasida-vegna-eldsumbrota-a-reykjanesi?lang=is
Samkvæmt talningu Ferðamálstofu fóru 4.697 um gossvæðið í gær.
Eftirlit viðbragðsaðila gekk vel í gærkvöldi en það bar helst til tíðinda í nótt að 13 manna hópur villtist af leið A þrátt fyrir að gönguleiðin sé ágætlega vörðuð stikum. Var þeim vísað inn á rétta leið. Sömu sögu er að segja af 5 manna hópi göngumanna.
Bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum og snævi þakinni jörð utan vega utan þéttbýlis svo fremi jörð sé frosin eða snjóþekjan traust og augljóst að ekki sé hætta á náttúruspjöllum. Ólögmætur akstur utan vega varðar refsingu.
Spá veðurvaktar um gasdreifingu
Suðvestan og vestan 5-10 m/s í dag. Gasmengun berst til austurs og gæti orðið vart í Ölfusi.
Mikilvæg skilaboð frá Veðurstofu fyrir þá sem ætla að fara að gosstöðvunum
- Gasmengun við gosstöðvarnar getur alltaf farið yfir hættumörk, mengunin leggst undan vindi og því öruggast að horfa til eldgossins með vindinn í bakið.
- Í hægviðri (<5 m/s) getur gas safnast fyrir í lægðum, þá stjórnast vindafar af landslagi og gas getur verið yfir hættumörkum langt upp í hlíðar, allan hringinn í kringum gosstöðvarnar. Í slíkum tilfellum þurfa áhorfendur að færa sig upp á fjöll og hryggi en ekki halda sig í brekkunum fyrir ofan.
Foreldrum með börn yngri en 12 ára verður snúið frá leið A af öryggisástæðum að svo stöddu. Áætla má að ferðalagið taki að lágmarki 5 til 6 klukkustundir. Gætt getur gasmengunar á gönguslóð og þá sérstaklega í nálægð við gosið. Börn hafa minna þol gagnvart loftmengun og eru skilgreind sem viðkvæmur hópur. Þá er ekki ráðlegt að börn dvelji lengur en 15 mínútur á stað þar sem loftmengun er yfir heilsuverndarmörkum, sjá upplýsingar á heimasíðu embættis landlæknis.
Börnum yngri en 12 ára er ekki hleypt að gosinu sjálfu og fylgjast viðbragðsaðilar með umferð við upphaf gönguleiðar A að gosinu. Göngumenn fari gætilega og haldi sig fjarri hraunjaðri. Þá er vakin athygli á því að enn er unnið að lagfæringum á þessari leið.
Í framkvæmd veldur þessi regla ekki vandkvæðum en styrkir og styður það frábæra starf sem unnið er af viðbragðsaðilum á svæðinu. Öryggisreglur sæta reglulega endurskoðun.
Foreldrum ungra barna er bent á auðvelda leið inn í Nátthaga þar sem skoða má hraunið sem rann í gosinu í fyrra. Þaðan sést ekki til gossins inn í Meradölum.