Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Eldeyjarsúlur í beinni útsendingu
Mánudagur 21. janúar 2008 kl. 00:45

Eldeyjarsúlur í beinni útsendingu

- Stórt stykki að klofna úr Eldey.

Stór og djúp sprunga  er í yfirborði Eldeyjar og gæti stórt stykki brotnað úr eyjunni við t.d. snarpan jarðskjálfta. Snarpir skjálftar hafa verið á hafsbotni nærri Eldey, m.a. í gær, sunnudag. Sprungan var meðal þess sem kom í ljós þegar leiðangur manna á vegum Reykjanesbæjar og Hitaveitu Suðurnesja hf. var gerður í eyjuna í dag. Tilgangur leiðangursins var að setja upp sjónvarpsmyndavél í eyjunni sem mun senda út mynd í hágæða upplausn allan sólarhringinn, allan ársins hring.

Þessi útvörður Reykjanessins rís 77 metra úr sæ um 14,4 kílómetra frá landi. Gróðurfar í eyjunni er ekkert. Þar er eingöngu klöpp og skítur, já og það djúpur skítur. Ef ekki hefði verið frost þegar leiðangurinn var farinn í Eldey í gær, sunnudag, þá hefðu leiðangursmenn þurft að vaða skít a.m.k. upp á miðja kálfa og fullyrt er að sumsstaðar á eyjunni háu sé gúanóið undir bælum súlunnar allt að metri á dýpt.

Árni Johnsen, alþingismaður, var á meðal leiðangursmanna í dag. Hann er sá einstaklingur sem oftast hefur komið í Eldey. Tvívegis hegur hann klifið eyjuna, þverhníptan sextugan hamarinn þar sem hann er lægstur. Tvívegis hefur Árni farið í eyjuna með þyrlu, en það var einmitt farkosturinn sem notast var við í dag. Njarðvíkingurinn Jakob Ólafsson, flugstjóri hjá Landhelgisgæslunni, fór fyrir áhöfn þyrlunnar Steinríks, sem flutti leiðangurinn, átta manns út í Eldey.

Blaðamaður Víkurfrétta var þar á meðal og er þar með kominn í hóp þeirra u.þ.b. tuttugu einstaklinga sem komið hafa í Eldey frá því hún var fyrst klifin árið 1896. Síðast var farið í Eldey 1982, þannig að þessi stærsta súlubyggð í heimi getur ekki sagt að hún hafi orð á sér fyrir að verða fyrir átroðningi ferðamanna.

Ferðamenn munu hins vegar verða tíðir gestir í eyjunni um ókomin ár. Nú verður nefnilega hægt að heimsækja Eldey í gegnum Internetið og fylgjast með fuglalífinu þar í beinni útsendingu. Tilhugalíf súlunnar, varpið og ungarnir eiga örugglega eftir að verða tíðir gestir á tölvuskjám út um allan heim.

Sett hefur verið upp sjónvarpsmyndavél í Eldey og hún tengd við öflugan sjónvarpssendi sem sendir lifandi myndir úr eynni upp á fasta landið. Móttakari er við Reykjanesvirkjun og þaðan verður myndefninu miðlað áfram inn á Internetið. Útsendinguna úr Eldey verður innan tíðar hægt að nálgast á vefsvæðum Reykjanesbæjar, Hitaveitu Suðurnesja og á ferðamálavefnum Reykjanes.is, svo einhverjir vefir séu nefndir.

Hugmyndin um vefmyndavélina er ekki ný af nálinni. Þorsteinn Erlingsson, bæjarfulltrúi og fyrrum skipsstjóri hefur í mörg ár látið sig dreyma um að gera súluna í Eldey aðgengilega á þennan máta. Það hefur Árni Johnsen, alþingismaður og fjórfaldur Eldeyjarfari, einnig gert. Það var því seint á síðasta ári sem haft var samband við Sigurð Harðarson, sem hefur mikla reynslu af því að setja upp fjarskiptabúnað við erfiðar aðstæður. Hann hefur komið upp endurvörpum fyrir fjarskipti í hæstu tindum og á stöðum sem eru gjörsamlega ófærir öðruvísi en með þyrlu. Verkefnið í Eldey er reyndar fyrsta verkið sem Sigurður vinnur sem felst í að senda út sjónvarpsefni.

Smíðað var sérstakt hús utanum myndavélina og sendibúnaðinn. Húsið er með mjög bröttu þaki sem á að koma í veg fyrir að súlan geti sest á þakið. Myndavélin er í kvistglugga sem er einnig með þannig halla að drit úr fuglinum á ekki að geta sest á glerið. Þá er í húsinu sjónvarpssendir og annar fjarskiptabúnaður fyrir myndavélina. Myndavélin og sendirinn eru síðan drifin áfram með rafgeymum sem sólarorkuspeglar sjá um að hlaða. Gert er ráð fyrir að endurnýja þurfi rafgeymana eftir um fimm ár. Að ári vilja aðstandendur verkefnisins koma fyrir annarri myndavél í húsinu í Eldey, auk þess sem hljóðnemi verður þá settur upp sem mun koma garginu í súlunni um heimsbyggðina alla.

Blaðamaður Víkurfrétta var einnig með kvikmyndatökuvél í Eldey og afrakstur ferðarinnar verður hægt að nálgast í vefsjónvarpi Víkurfrétta á mánudagskvöld.

Útsendingar myndavélarinnar í Eldey verður hægt að nálgast á næstu dögum en unnið er að því að koma útsendingunni inn á Internetið.

 

Ljósmyndir frá Eldey í Myndagallerýi á forsíðu vf.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024