Eldey skelfur
Nokkrir skjálftar hafa riðið yfir í hafinu við Eldey út af Reykjanesi frá því í gær. Hrinan hófst með skjálfta sem mældist 3,1 stig um klukkan þrjú í gær og strax í kjölfarið fylgdu skjálftar sem mældust nokkru minni eða um 2,5 stig.
Upptök skjálftanna eru nærri Eldey og Geirfuglaskeri og frá því klukkan þrjú í gær hafa sex skjálftar mælst stærri en tvö stig á svæðinu, þar á meðal einn sem náði þremur stigum, auk nokkurra minni.
Skjálftar á þessu svæði eru algengir og því ekki tímabært að leggja eitthvað út af þessari hrinu eins og er, segir Veðurstofa Íslands.
Kort: Veðurstofa Íslands.