Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ekki vitað hvar stærsta flugvél heims getur lent í Bandaríkjunum
Þriðjudagur 4. október 2005 kl. 11:11

Ekki vitað hvar stærsta flugvél heims getur lent í Bandaríkjunum

Áhöfn stærstu flugvélar í heimi, Antonov AN-225, bíður á Keflavíkurflugvelli eftir að fá svör við því hvar vélin megi lenda í Bandaríkjunum með farm sinn. Vélin flytur risastórar rafstöðvar sem á að nota á flóðasvæðum í suðurríkjum Bandaríkjanna. Næsti áfangastaður var áætlaður í Texas, en einhver vandræði eru þar við að taka á móti vélinni, þar sem áhöfnin er frá Úkraínu.

Flugvélin sem lenti í Keflavík í nótt er engin smásmíði. Hún er 84 metra löng og með 88,5 metra vænghaf. Vélin hefur sex mótora og fulllestuð er hún um 650 tonn í flugtaki. Þessi risastóra þota getur lengst flogið 15.500 kílómetra, en með fullan farm fer hún ekki nema um 4000 kílómetra. Þannig er þessi vél stærri en bæði risaþotur Boeing og Airbus, sem nú eru í smíðum.

Flugvélin er upphaflega smíðuð í Úkraínu til að taka þátt í geimferðaáætlun Sovétríkjanna sálugu og hlutverk vélarinnar var þá að flytja geimferju Sovétmanna. Eftir að Sovétríkin hrundu varð það hlutskipti vélarinnar að grotna niður en fyrir fjórum árum var vélin endurbyggð og er í dag notuð til að flytja þunga hluti heimshorna á milli.

Vélin mun fara frá Keflavík áleiðis vestur um haf seint í kvöld en áætluð brottför er kl. 00:30.

Meðfylgjandi mynd var tekin af vélinni þar sem hún er staðsett á "Rauða torginu" á Keflavíkurflugvelli í morgun. Vélin sést vel frá Reykjanesbrautinni ofan Keflavíkur.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024