Ekki verið að auka þjónustu við íbúa þrátt fyrir hærri skatta
Bókun Sjálfstæðisflokks vegna fyrri umræðu um fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2023.
Sjálfstæðisflokkurinn vekur athygli á því að í forsendum og markmiðum fjárhagsáætlunar 2023 er gert ráð fyrir að útsvar hækki um 23%, tekjur af lóðaleigu um 28% og fasteignaskattar um 19%, þrátt fyrir að álagningarhlutfall fasteignaskatts sé lækkað. Einnig er gert ráð fyrir að launakostnaður hækki um 5% á milli ára þrátt fyrir að stöðugildum fjölgi um 15. Mikil óvissa er m.a. vegna kjarasamninga og vekur Sjálfstæðisflokkurinn athygli á því að launakostnaður hefur aukist hjá Reykjanesbæ um 65% frá árinu 2018. Starfsmannafjöldi Reykjanesbæjar hefur aukist um 31% á þessum tíma, á meðan fjölgun íbúa nam 18% á sama tímabili.
Miðað við ofangreinda þróun telur Sjálfstæðisflokkurinn mikilvægt að farið sé vel í saumana á öllum útgjaldaliðum, sér í lagi stöðugildafjölda og hækkun launakostnaðar. Í ljósi þess telur Sjálfstæðisflokkurinn mikilvægt að skoða allan rekstrar- og launakostnað á síðasta kjörtímabili og hvernig hann hefur skilað sér í betri þjónustu við íbúa.
Í samanburði við sambærileg sveitarfélög er framlag til menningarmála í Reykjanesbæ töluvert hærra miðað við tekjur en í öðrum málaflokkum. Við erum sem sagt að leggja meira til menningarmála sem hlutfall af tekjum en þau sveitarfélög sem við berum okkur saman við. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að öflugt menningarlíf sé í sveitarfélaginu en að ávallt sé þess gætt að fjármunum sé varið á sem bestan hátt. Því teljum við eðlilegt að kostnaður við málaflokkinn sé skoðaður í heild sinni og þeir möguleikar sem eru til hagræðingar. Til dæmis má skoða hvort Hljómahöll/Stapinn verði færður yfir í einkarekstur með stuðningi sveitarfélagsins. Auk þess þarf að skoða rekstur tónlistarskólans sem tilheyrir fræðslumálum, þannig að hann endurspegli raunverulegan kostnað svo sem húsnæðiskostnað.
Leggja þarf aukna áherslu á að verkefni sem ekki eru lögbundin í starfsemi sveitarfélagsins, séu gerð upp með skýrum hætti og ávallt sé lagt mat á hagkvæmni þeirra þegar áframhaldandi stuðningur við þau er ákveðinn.
Sjálfstæðisflokkurinn sér ástæðu til að ítreka áætlaða hækkun útsvars um 23%, hækkun tekna af lóðarleigu um 28% og hækkun fasteignaskatta um 19% á árinu 2023. Þrátt fyrir þessa miklu hækkun skatta hjá sveitarfélagsinu er ekki verið að auka þjónustu við íbúa, heldur er ljóst að niðurskurðar er þörf. Slíkur rekstur getur ekki verið sjálfbær til lengdar.
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ,
Helga Jóhanna Oddsdóttir
Guðbergur Reynisson
Birgitta Rún Birgisdóttir