Ekki verði spillt þeim tækifærum sem felast í einstakri náttúru svæðisins
Umhverfis- og skipulagsnefnd Sveitarfélagsins Voga hefur skilað umsögn til Atvinnuveganefndar Alþingis um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, 727. mál, skv. tölvubréfi dags 25. apríl 2012.
Umsögn umhverfis- og skipulagsnefndar er eftirfarandi:
Meginmarkmið aðalskipulags 2008-2028 er „að sveitarfélagið Vogar verði vistvænt sveitarfélag sem leggur áherslu á fjölskylduvænt umhverfi, fjölbreytta náttúru, útivistarsvæði og hátt þjónustustig. Gert er ráð fyrir að sjálfbær þróun verði leiðarljós við skipulag og framkvæmdir þannig að kynslóðir framtíðarinnar fái notið alls þess sem við höfum nú og gott betur“.
Samkvæmt sameiginlegri stefnumótun sem birtist í tillögu um svæðisskipulag sveitarfélaganna á Suðurnesjum sem samþykkt hefur verið til auglýsingar kemur fram skýr vilji sveitarstjórnarmanna á svæðinu til að allrar varúðar sé gætt við nýtingu svæðisins en þar segir m.a. “Vegna náttúruverndargildis háhitasvæða þarf að fara með gát við nýtingu jarðhitans og setja reglur við nýtingu sé hún talin hafa óásættanleg áhrif á verndar- og/eða útivistargildi háhitasvæða. Skipulagning og stofnun jarðvangs (e. geopark) er leið að því markmiði að tekið sé markvisst á annarri nýtingu og náttúruvernd samhliða nýtingu jarðhita og annarra auðlinda á Suðurnesjum. Umfang orkuvinnslu, útfærsla mannvirkja og reglur verða skilgreindar þegar ítarlegri upplýsingar liggja fyrir”.
Sveitarfélagið Vogar er aðili að Reykjanesfólkvangi og hefur tekið þátt í að móta stefnu og framtíðarsýn fólkvangsins sem nú liggur fyrir (sjá vefslóðina http://reykjanesfolkvangur.is/files/11210_sk120404_Stj%C3%B3rnunar%C3%A1%C3%A6tlun_dr%C3%B6g.pdf ). Þessi vinna mun væntanlega nýtast í áætlun um eldfjallagarð (geopark) sem sveitarfélögin á Suðurnesjum eru öll aðilar að. Í áætluninni er lagt til að stækka fólkvanginn og hugsanlega sameina Bláfjallafólkvangi. Í stjórnunaráætlunni er lögð áhersla á að orkunýtingin verði á forsendum náttúruverndar og að sjálfbærni verði gætt. Mikilvægt er að rammaáætlun taki mið af þessari stefnumótun þannig að áætlunin kollvarpi ekki þeirri vinnu sem nú er vel á veg komin.
Í niðurstöðum 2. áfanga rammaáætlunar kemur fram að friðun og virkjun á háhitasvæðum fara yfirleitt ekki saman og því sé eðlilegt er að skipta háhitasvæðum í tvo meginflokka, nýtingarflokk og verndunarflokk. Í niðurstöðu rammaáætlunar kemur fram að vegna skorts á gögnum er ekki talið unnt að skipta öllum þekktum háhitasvæðum í flokkana tvo á grundvelli raka. Ef litið er til gagna rammaáætlunar má leiða rök að því að Reykjanesið falli að mestum hluta undir það.
Umhverfis- og skipulagsnefnd Sveitarfélagsins Voga telur rétt að horfa til þeirra tækifæra sem felast í eldfjallagarði og fólkvangi á Reykjanesskaga og ekki verði spillt þeim tækifærum sem felast í einstakri náttúru svæðisins.