Ekki verði farið í 600 milljóna króna fjárfestingu á breytingu á ráðhúsi
Sjö tillögur minnihlutans inn í fjárhagsáætlun
„Minnihluti bæjarstjórnar hefur síðastliðin ár lagt áherslu á að vinna að fjárhagsáætlun með meirihluta bæjarstjórnar (Samfylkingu, Framsóknarflokki, Beinni leið) og lagt fram fjölda tillagna og ábendinga án þess að bóka það sérstaklega. Við umræður um fjárhagsáætlun 2021 var meirihlutanum og bæjarstjóra tíðrætt um að engar tillögur til hagræðingar hafi borist frá bæjarfulltrúum minnihlutans. Af þeim sökum þykir okkur tilhlýðilegt að leggja fram nokkrar tillögur og færa þær til bókar þrátt fyrir að fjárhagsáætlun sé á vinnslustigi,“ segir í bókun minnihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sem lögð var fram við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árin 2022 til 2025.
Tillögur minnihlutans eru eftirfarandi:
Ekki verði farið í 600 milljóna króna fjárfestingu á breytingu á ráðhúsi og bókasafni að þessu sinni. Framtíðarstaðsetning bókasafnsins hefur verið til umræðu í tengslum við breytingar á Tjarnargötu 12 og eru mjög skiptar skoðanir um hentugleika húsnæðisins. Leggjast þarf í viðameiri greiningu á þörfum bókasafnsins til framtíðar og kanna jafnvel aðra möguleika. Samhliða þeirri greiningu þarf að skoða möguleikana á því að leigja húsnæði fyrir starfsemi ákveðinna sviða og horfum þá helst til velferðarsviðs. Þannig mætti nýta húsnæði til að vinna úr verkefnum frá hinu opinbera eins og hugmyndir eru um Lýðheilsumiðstöð og nýsköpun í velferðarþjónustu.
Kanna þarf betur þörf á endurráðningu þegar starfsmenn ljúka störfum.
Með aukinni rafrænni þjónustu og stafrænni umbreytingu hafa fyrirtæki á almennum og opinberum markaði verið að minnka umsvif s.s. launadeilda. Fara þarf vel yfir þörfina fyrir auknu mannahaldi áður en auglýst eru störf hjá sveitarfélaginu.
Ekki verði ráðið í heila stöðu lögfræðings eins og áætlað er.
Mikið mæðir á lögfræðingi bæjarins og leggjum við til að skoðaðir verði möguleikar á samstarfi við háskólana um að hluti af námi verði í formi vinnu sem aðstoðarmenn við lögfræðing á stjórnsýslusviði eða ráðið í hlutastarf.
Framtíðarnefnd verði lögð niður.
Verkefni framtíðarnefndar verði flutt annars vegar til menningar- og atvinnuráðs og hins vegar til umhverfis- og skipulagsráðs
Lýðheilsuráð verði lagt niður.
Verkefni lýðsheilsuráðs verði flutt annars vegar til íþrótta- og tómstundarráðs og hins vegar til velferðarráðs.
Húsnæði í eigu Reykjanesbæjar.
Skoðað verði í heild hvort hægt sé að leigja eða selja einhverjar eignir bæjarins sem ekki eru í notkun eða eru í tímabundinni notkun.
Greina þarf betur hækkun launa milli áranna 2020–2021.
Laun og launatengd gjöld hafa hækkað á hálfu ári hjá Reykjanesbæ úr fjórum milljörðum í um 4,8 milljarða eða um 20,7% samkvæmt sex mánaða uppgjöri Reykjanesbæjar. Það má því vænta að hækkunin verði í heild 1,6 milljarður á milli ára. Minnihlutinn hefur ítrekað óskað eftir greiningu og teljum að þau gögn sem liggja frammi skýri enn ekki nægjanlega vel hvar þessi mikla aukning liggur. Sú skýring sem gefin hefur verið er að kjarasamningar kennara hafi orsakað þessa hækkun sem og vinnutímastytting starfsfólks. Minnihlutinn telur nauðsynlegt að fá betri og mun nákvæmari gögn og skýringar á þessari miklu hækkun launa.
Undir tillögurnar rita þau Margrét Sanders, Baldur Guðmundsson, Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Margrét Þórarinsdóttir og Gunnar Þórarinsson.