Ekki unnt að sækja slasaðan sjómann vegna veðurs
Þyrla Landhelgisgæslunnar þurfti frá að hverfa í nótt vegna veðurs en hún fór til að sækja slasaðan sjómann um borð í skip um 20 mílur vestur af Garðskaga. Björgunarmenn hugðust síga í bátinn til að sækja manninn sem hafði slasast á fæti en urðu að hætta við þar sem vont var í sjó. Þess í stað var siglt með manninn til Keflavíkur og tók það á þriðju klukkustund. Óskað var eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar um klukkan tvö í nótt. Morgunblaðið á Netinu greinir frá.