Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ekki um 40 vændiskaupendur af Suðurnesjum að ræða
Föstudagur 14. nóvember 2014 kl. 09:48

Ekki um 40 vændiskaupendur af Suðurnesjum að ræða

Í síðustu viku bárust fréttir af því að 64 vændismál hefðu verið unnin af lögreglunni á Suðurnesjum og afhent embætti Ríkissaksóknara. Þar af hafi 40 manns verið ákærðir fyrir kaup á vændi. Einhverjir gætu hugsanlega haldið að öll vændismálin ættu uppruna sinn að rekja til Suðurnesja, en svo er alls ekki.

„Lögreglan á Suðurnesjum hafði með rannsókn allra þessara mála að gera. Hins vegar að brotavettvangurinn hafi verið á Suðurnesjum er alls ekki rétt. Í þessu tilviki áttu brotin sér stað á höfuðborgarsvæðinu. Upphaflega bárust lögreglunni á Suðurnesjum vísbendingar um brotastarfsemina og síðan leiddi eitt af öðru og rannsókn varð sífellt yfirgripsmeiri. Á endanum urðu þetta ein 65 mál er vörðuðu kaup á vændi. Þessi mál eru meira og minna tengd,“ segir Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Að sögn Gunnars komu kaupendur í málunum víða að af landinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Af hverju er þá lögreglan á Suðurnesjum að rannsaka mál sem ekki koma hér upp?
„Þegar okkur berast upplýsingar um ákveðið mál líkt og þessi og þræðirnir liggja svo eitthvað annað, þá höldum við samt oft á tíðum áfram með málin, en þá í góðri samvinnu við lögreglulið í því umdæmi sem um er að ræða. Það að færa svona umsvifamikla rannsókn geti valdið töfum og misskilningi og það skilar sér e.t.v. í ekki nógu vel unnum málum. Við einfaldlega klárum það sem við tökum að okkur,“ segir Gunnar. „Þetta getur þó valdið misskilningi, að setja hlutina fram með þeim hætti hefur verið gert í stuttum fréttagreinum undanfarið, það er alveg rétt,“ bætir hann við.

Upplýsingar um vændismál geta verið að koma upp í tengslum við farþega sem fara um Flugstöð Leifs Eiríkssonar að sögn Gunnars. Hann segir mikla vinnu liggja að baki rannsókn á þessum vændismálum, enda sé þetta mikill fjöldi mála. „Flugstöðin er auðvitað í okkar umdæmi og ýmis mál sem koma þar upp hafa teygja anga sína inn á höfuðborgarsvæðið og einnig út á land. Sem dæmi má líka nefna að þau fíkniefnamál sem koma þar upp tengjast alls ekki öll Suðurnesjum beint.“

Gunnar rifjar einnig upp mansalsmál sem kom upp árið 2009, en lögreglan á Suðurnesjum hafði rannsókn á því máli að gera. „Þegar við tökum að okkur rannsóknina þá höldum við henni til streitu. Í því máli var brotavettvangurinn ekki á Suðurnesjum.