Ekki tímabært að taka þátt í stofnun Öldungaráðs
– vilja taka yfir rekstur hjúkrunarheimilisins í Víðihlíð og heimahjúkrun
Óskað var eftir því að félagsmálanefnd Grindavíkur að hún tilnefndi tvo fulltrúa í undirbúningshóp um stofnun Öldungaráðs á Suðurnesjum.
Félagsmálanefnd Grindavíkur hefur bókað að í ljósi þess að stefna Grindavíkurbæjar er að taka yfir rekstur hjúkrunarheimilisins í Víðihlíð og heimahjúkrun, telur félagsmálanefnd rétt að Grindavíkurbær einbeiti sér að því að koma á fót Öldungaráði í Grindavík sem geti verið bæjarstjórn til samráðs um það verkefni.
Félagsmálanefnd telur eftir sem áður mikilvægt að halda góðu samstarfi við önnur sveitarfélög á Suðurnesjum um uppbyggingu þjónustu við eldri borgara á Suðurnesjum, en telur ekki tímabært að taka þátt í stofnun Öldungaráðs á Suðurnesjum að svo stöddu.
Bæjarráð Grindavíkur tekur undir tillögu félagsmálanefndar um að ekki sé tímabært að taka þátt í stofnun Öldungaráðs á Suðurnesjum.