Ekki talin ástæða til aðgerða vegna olíumengunar á Garðskaga
Umhverfisstofnun telur ekki ástæðu til aðgerða í fjörunni á Garðskaga þar sem olíu varð vart í fjörunni í gærdag. Mikil olíubrák var á sjónum og grjót í fjörunni var löðrandi í olíu á stóru svæði.
Umhverfisstofnun barst á þriðjudag tilkynning um olíumengun á ströndinni við Garðskaga. Fulltrúi frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja kannaði svæðið í gær og í dag og var það niðurstaða hans og Umhverfisstofnunar að mengunin sé ekki þess eðlis að ástæða sé til að fara í hreinsunaraðgerðir. Um er að ræða lítið magn af olíu, svæðið muni jafna sig á einhverjum dögum og ekki verða skaði af. Hætta er á raski og skemmdum sem verður við hreinsunaraðgerðir og því betra að olían skolist burt með flóðum ef mögulegt er. Heilbrigðisfulltrúi Suðurnesja átti að fara og skoða aðstæður aftur eftir hádegið í dag en þá mun annað flóð hafa gengið yfir.