Ekki sátt við það hvernig myndin var notuð - segir sjómannsfjölskylda í Grindavík
„Þetta er búið að vera ömurlegt. Ég er ekki sátt við það hvernig myndin var notuð,“ segir Sigríður Jónasdóttir í Grindavík í viðtali við vefritið smugan.is, en ljósmynd af fjölskyldu hennar var notuð í heilsíðuauglýsingu gegn frumvörpum ríkisstjórnarinnar, undir textanum „Hvað höfum við gert ykkur?“ fyrir helgi. Myndin var tekin vegna viðtals við fjölskylduföðurinn í Sjómannadagsblaði Grindavíkur árið 2009.
Sigríður segir við Smuguna að veitt hafi verið leyfi fyrir notkun myndarinnar, enda þótt hún sjálf hefði haft fyrirvara á. „Við vissum ekki hvernig þetta yrði notað.“
Sigurður Sævarsson, sjómaður, segir að textinn sem notaður var við auglýsinguna hafi verið annar en hann bjóst við. Hann upplýsir að myndin hafi verið notuð áður, í tengslum við áskorun um að ekki yrði hreyft við sjómannaafslætti fyrir tveimur árum, og hann hefði gert ráð fyrir því að textinn yrði svipaður og þá. Hann sé að íhuga hvort hann geri athugasemdir við Sjómanna- og stýrimannafélag Grindavíkur, en hafi ekki ákveðið hvort hann geri það.
Myndin að ofan tengist ekki fréttinni beint en er frá löndun í Grindavíkurhöfn.