Ekki rafmagnseldur - grunur um íkveikju við Bragavelli
Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um bruna í íbúðarhúsi við Bragavelli í Reykjanesbæ, þann 24.02.2010 vill lögreglan á Suðurnesjum koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri. Lögreglan annaðist eldsupptakarannsókn á vettvangi og beindist grunur annars vegar að íkveikju og hins vegar að eldi af völdum rafmagns.
Niðurstaða sérstakrar rannsóknar sérfræðings Brunamálastofnunar á eldi af völdum rafmagns varð neikvæð og benda því allar líkur til þess að um íkveikju hafi verið að ræða og miðar lögreglan rannsókn sína við það. Enginn hefur enn verið handtekinn vegna málsins.
Þeir sem kynnu að geta veitt einhverjar upplýsingar um málið eru vinsamlegast beðnir að hafa samband við lögregluna á Suðurnesjum í síma 420 1700 eða gegnum netfangið [email protected]
Mynd: Frá vettvangi brunans við Bragavelli í síðustu viku. Ljósmynd: Ellert Grétarsson