Ekki ráðlagt að dvelja lengi við gosstöðvarnar vegna loftmengunar
Lögreglan á Suðurnesjum áréttar að bannað er að leggja ökutækjum á og við Suðurstrandarveg. Á þetta sérstaklega við um svæðið næst gosstöðvunum í Fagradalsfjalli. Leggja skal bílum á skipulögðum stæðum á grasflötum við veginn en aðkoma að bílastæðum er bæði úr austri og vestri.
Gönguleið:
Áætla má að gangan taki 3-4 klst. fram og til baka fyrir meðalvant göngufólk. Gönguleiðin er stikuð og greinileg en hefur reynst mörgum erfið. Nauðsynlegt er að vera í góðum gönguskóm og öðrum útivistarfatnaði.
Á safetravel.is eru upplýsingar um stöðuna hverju sinni uppfærðar reglulega yfir daginn.
Loftmengun:
Yfirborðsmengun getur verið í jarðvegi, snjó og yfirborðsvatni vegna þungmálma og uppsöfnunar flúors (F). Mengun er mest í næsta nágrenni við gosstöðina. Vegna loftmengunar er ekki ráðlagt að dvelja lengi við gosstöðvarnar. Börnum, öldruðum, barnshafandi konum og þeim sem hafa undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma er ráðlagt frá því að fara á gosstöðvarnar ef einhver loftmengun er yfirvofandi.
Spá veðurvaktar um veður og gasdreifngu í dag:
Austan og norðaustan 3-8 m/s og má búast við gasmengun vestur og suðvestur af gosstöðvunum, t.d. í Grindavík. Síðdegis lægir og líklega hæg breytileg átt og skúrir eða slydduél á svæðinu. Gasið berst væntanlega skammt frá gosstöðvunum.
Áætlun viðbragðsaðila sem gæti breyst án fyrirvara:
• Frá miðnætti og fram eftir degi eru engir viðbragðsaðilar á svæðinu til að mæla gasmengun og bregðast við óhöppum.
• Gossvæðið er hættulegt og þá ekki síst vegna lélegra loftgæða. Lögregla getur án fyrirvara lokað fyrir alla umferð inn að gosstöðvunum. Hættusvæði við gosstöðvarnar hefur verið merkt inn á kort sem hægt er að nálgast á Facebook síðu lögreglu og á vedur.is
• Búast má við gasmengun vegna eldgoss á Reykjanesi og er fólk hvatt til að fylgjast með loftgæðamælingum á loftgaedi.is og leiðbeiningum frá Almannavörnum.
• Gasmengun við gosstöðvarnar getur alltaf farið yfir hættumörk, mökkurinn leggst undan vindi og því öruggast að horfa til eldstöðva með vindinn í bakið.
• Í hægviðri (<5 m/s) getur gas safnast fyrir í dalnum, þá stjórnast vindafar af landslagi og gas getur verið yfir hættumörkum langt upp í hlíðar, allan hringinn í kringum gosstöðvarnar. Í slíkum tilfellum þurfa áhorfendur að færa sig upp á fjöll og hryggi en ekki halda sig í brekkunum fyrir ofan.
• Velja þarf gönguleið eftir vindaspá hverju sinni.
• Forðast skal að taka hunda með sér að gosstöðvunum. Hundar eru útsettari fyrir mengun vegna gass þar sem þeir eru nær jörðu. Einnig getur flúor leynst í pollum sem hundar drekka úr.