Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Ekki ofsaakstur
Sunnudagur 28. september 2003 kl. 18:50

Ekki ofsaakstur

Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að ofsaakstur hafi valdið hörmulegu slysi á Reykjanesbraut á miðvikudag þegar karlmaður á sjötugsaldri lést. Tildrög slyssins voru þau að maðurinn sem lést hafði ekið áleiðis frá Grindavík og hafði rétt beygt inn á Reykjanesbraut, í átt til Reykjavíkur, þegar bíll úr gagnstæðri átt lenti á honum. Bíllinn sem á honum lenti ók Reykjanesbraut í átt til Keflavíkur. Ökumaður þess bíls virðist hafa misst stjórn á honum við Grindavíkurafleggjarann. Hann lenti utan í ljósastaur og síðan á umferðareyju sem þar er. Bíllinn kastaðist í loft upp og lenti á ofan bílnum sem hinn látni ók. Bílstjórarnir voru einir, hvor í sínum bíl.

Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn Lögreglunnar í Keflavík, segir rannsókn á slysinu ekki lokið, en ekkert hafi komið fram sem skýri hvers vegna ökumaður bílsins missti stjórn á honum. Hámarkshraði á Reykjanesbraut er alla jafna 90 kílómetrar á klukkustund. Á kafla við Grindavíkurafleggjarann, er hámarkshraði þó 70 kílómetrar á klukkustund. Jóhannes segir að bílstjórinn og sjónarvottar hafi verið yfirheyrðir en ekkert hafi komið fram sem bendi til annars en að bílnum hafi verið ekið á venjulegum umferðarhraða. Frá þessu var greint í fréttum RÚV.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024