Ekki nógu mikið aðhald
Gert ráð fyrir 2,4 milljarða tapi á bæjarsjóði Reykjanesbæjar 2021. Nauðsynlegt að beita aðhaldi í rekstri en ekki auka annan rekstrarkostnað, segja Sjálfstæðismenn. Miðflokkurinn segir hagræðingu í stjórnsýslunni tekið fálega.
Minnihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokksins gagnrýna fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2021 sem lögð var fram til seinni umræðu og samþykkt með atkvæðum meirihlutans á bæjarstjórnarfundi 15. desember. Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða fyrir bæjarsjóð verði neikvæð sem nemur 2,4 milljörðum króna en áður hafði verið gert ráð fyrir að afkoman yrði jákvæð um 830 milljónir.
Sjálfstæðismenn segja í bókun sinni á fundinum að sú fjárhags-áætlun sem nú sé lögð fram fyrir næsta ár litist mjög af erfiðu efnahagsástandi í kjölfar heimsfaraldurs. „Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir bæjarsjóð árið 2021 gerir ráð fyrir tæplega 2,5 milljarða tapi. Áætlað er að tekjur lækki um 224 milljónir, laun og launatengd gjöld hækki um 7,4% m.a. vegna samningsbundinna launahækkana og annar rekstrarkostnaður hækki um 11,7%.“ Í bókuninni er bent á að stöðugildum hafi fjölgað um 38% á sama tíma og bæjarbúum hafi fjölgað um 35,5%. „Í erfiðu atvinnuástandi er snúið að beita hagræðingaraðgerðum án þess að til uppsagna komi en nauðsynlegt að beita aðhaldi í rekstri, en ekki auka annan rekstrarkostnað,“ segir í bókun Sjálfstæðismanna sem Margrét Sanders, oddviti Sjálfstæðisflokks, lagði fram.
Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki, lagði einnig fram bókun þar sem segir að nauðsynlegt sé að hagræða í rekstri bæjarins eins og mögulegt sé án þess að til uppsagna þurfi að koma. „Meirihlutinn tók tillögu Miðflokksins um hagræðingu í stjórnsýslunni, sem hefur blásið út, fálega. Fjármálastjórnun bæjarins fyrir kórónuveirufaraldurinn einkenndist af útgjaldaaukningu sem ekki reyndist innistæða fyrir. Þannig var hækkun launa sviðsstjóra fyrir ári síðan um 122 þúsund krónur á mánuði sem köld vatnsgusa í andlit almennra starfsmanna bæjarins og sýnir best hvar forgangsröðun meirihlutans liggur.“
Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar og oddviti Samfylkingar, sagði í bókun frá meirihlutanum að mikil íbúafjölgun hafi kallað á aukna þjónustu og við því hafi verið brugðist og aðhaldi beitt. „Öll umræða um að báknið hafi vaxið er því byggð á sandi.“
Í annarri bókun meirihlutans vegna gagnrýni minnihlutans sem Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar og oddviti Beinnar leiðar, lagði fram kemur m.a. fram að sú fjárhagsáætlun sem nú hafi verið samþykkt sýni í raun hversu mikil óvissa ríki um stöðu mála í Reykjanesbæ. „Samfélagið býr nú við meira atvinnuleysi en við höfum áður þekkt og því reynir verulega á alla innviði þess. Það er ekki auðvelt, við þessar aðstæður, að gera raunhæfar áætlanir, þar sem enginn getur sagt fyrir með einhverri vissu hvað muni gerast á nýju ári.