Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ekki mikið heima í desember
Þriðjudagur 20. desember 2022 kl. 16:00

Ekki mikið heima í desember

og því hentugt hversu mikið jólabarn eiginkonan er

Jólin hjá þingmanninum

Vilhjálmur Árnason, þingmaður í Grindavík, var nýlega kjörinn ritari Sjálfstæðisflokksins en hann hefur setið á þingi síðan 2013. Margir spyrja sig eflaust hvað felst í því að vera ritari stjórnmálaflokks en í flestum félagasamtökum er ritari hluti af stjórn og hlutverkið að rita fundargerðir. Ekkert slíkt er á herðum Villa: „Þetta orð, ritari, er oft notað þegar mörg félög, lönd eða hópar eru undir einni regnhlíf eins og t.d. hjá Sameinuðu þjóðunum en þar er talað um aðalritara. Helsta hlutverk ritara Sjálfstæðisflokksins er að halda utan um allt innra starfið sem samanstendur af yfir 100 aðildarfélögum um allt land. Þetta nafn var tekið upp fyrir nokkrum árum en þar áður hafði annar varaformaður verið kjörinn til að sinna þessu starfi. Ritari má ekki vera ráðherra en formaður og varaformaður eru í því hlutverki þegar Sjálfstæðisflokkurinn er við völd. Ég er nýlega tekinn við og hlakka til að hitta sjálfstæðisfólk vítt og breytt um landið og tengja grasrótina betur við kjörna fulltrúa.“

Það er ekki beint hægt að segja að alþingi sé jólafjölskylduvænn vinnustaður en um hálfgerða vertíð er að ræða í aðdraganda jólafrís og mörg lög sem þarf að samþykkja: „Ég er heppinn hvað Sigurlaug konan mín er mikið jólabarn en fjölskyldan veit að í desember er ég ekki mikið heima við því mjög mikið er að gera á þinginu auk þess sem við erum boðnir í ótal jólaboð, útgáfuteiti og annað. Þess vegna er ég nánast ekki með neinar aðra jólaskyldur en kaupa jólagjöf og afmælisgjöf handa Sigurlaugu en hún á afmæli á aðfangadegi. Við erum oftast búin með mest allan jólaundirbúning snemma eða fyrir desember. Stemningin í þinginu er alltaf skemmtileg í desember, við setjum upp jólatré, skreytum og boðið er upp á piparkökur og konfekt svo við upplifum jólaandann eitthvað en það er mikið álag og í raun nett vertíðarstemning sem er alltaf skemmtileg. Þingið á að fara í jólafrí um miðjan desember en ég man ekki eftir að það hafi gerst, við erum nánast fram á aðfangadag að klára síðustu málin, stundum á milli jóla og nýárs, svo það er alltaf mjög góð tilfinning þegar fríið brestur á og þá fyrst get ég almennilega notið jólaandans í faðmi fjölskyldunnar.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Villi er úr Skagafirðinum og ólst upp við sínar jólavenjur en var laglega fljótur að tileinka sér jólahefðir jólabarnsins Sigurlaugar: „Sigurlaug er alin upp við miklar jólahefðir og ég hef algerlega leyft henni að stýra öllum jólaundirbúningi. Þótt ég vildi myndi ég varla fá að skipta mér mikið af, ég er fínn í að hengja upp jólaskraut en geri það ekki nema skv. hennar skipulagi, hún stýrir þessum málum og ég er mjög sáttur við það,“ sagði Villi að lokum.