Ekki leggja bílum hér á eigin ábyrgð!
Ætla má að opnað hafi verið bílastæði í Reykjanesbæ þar sem hægt er að leggja bílum á ábyrgð annarra. Að minnsta kosti er bannað að leggja þar bílum á eigin ábyrgð í bílastæðin, sé mark takandi á merkingum sem settar hafa verið upp á staðnum.
Miklar framkvæmdir standa yfir við DUUS húsin í Reykjanesbæ þar sem verið er að klæða húsin að utan. Verktakinn tekur ekki ábyrgð á tjóni sem kann að verða á bílum sem ökumenn leggja í stæði við húsið og hefur því málað merkingar á stórar plötur. Svo má snúa út úr merkingunum á alla vegu. Ætli tilgangurinn hafi ekki verið sá að benda á að bílar eru á ábyrgð þeirra sem leggja í stæðin við húsið en ekki verktakans, sem gæti misst hamarinn sinn, nagla eða annað ofan af þaki og í bílana sem leggja fyrir neðan.
Ljósmyndir: GEIN