Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ekki hægt að draga þá ályktun að kvikan leiti upp vestan við Þorbjörn
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
miðvikudaginn 14. ágúst 2024 kl. 21:54

Ekki hægt að draga þá ályktun að kvikan leiti upp vestan við Þorbjörn

Jarðskjálftar vestan og suðvestan við Þorbjörn í Grindavík hafa vakið athygli vísindafólks. Það sem meðal annars hefur komið fram við skoðun á umræddu svæði er að ekkert landris hefur verið yfir þessum stað eða gliðnun sem mætti tengja við að kvika sé að troða sér þarna inn.

„Skjálftarnir vestan við Þorbjörn hafa verið rýndir, m.a. af Kristínu Vogfjörð á Veðurstofu Íslands og hún er mjög glögg og reynd,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í samtali við Víkurfréttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Magnús Tumi nefnir tvennt sem virðist einkenna þessa skjálftavirkni suðvestur af Þorbirni. Hennar fer að gæta þegar landris hefur staðið í einhvern tíma á svæðinu. Þá raðast hún á norður/suður sprungur nokkuð fyrir ofan dýpið þar sem kvikuhólfið er talið vera.

„Líklegasta skýringin er því að þarna sé spenna fyrir og þessi staður skjálfi vegna þess, og sé ekki merki um kvikusöfnun nákvæmlega á þessum stað. Þetta sé svona hliðareinkenni virkninnar. Semsagt, tengt landrisinu en ekki hægt að draga þá ályktun að kvikan leiti upp á við þarna.“

Svæðið hefur verið skoðað sérstaklega af vísindafólki.