Ekki hægt að byggja upp samfélag þar sem íbúar eru tilneyddir til þess að búa
„Það hefur komið skýrt fram að það er stór meirihluti sem vill fá eignirnar sínar greiddar út með forgangs kauprétti á þeim síðar svo að íbúar geti verið sjálfstæðir í sinni ákvarðanatöku um framhaldið. Það er ekki hægt að byggja upp samfélag þar sem íbúar eru tilneyddir til þess að búa á svæðinu í hamförum sem þessum þar sem ekki er vitað hversu langan tíma atburðirnir muni standa yfir. Jafnframt standa íbúar frammi fyrir mikilli óvissu hvað varðar kostnað eigna í Grindavík í ofanálag við útgjöld reksturs heimila fjarri heimahögum og viljum við ítreka mikilvægi þess að ríkisstjórnin leggi fram aðgerðir um greiðsluskjól gagnvart íbúðalánum þeirra.“ Þetta segir í pistli frá fulltrúum bæjarstjórnar Grindavíkur á vef bæjarins í dag.
Pistillinn er svohljóðandi:
Kæru Grindvíkingar, við viljum byrja á því að þakka ykkur fyrir góðan og upplýsandi íbúafund í gær. Það er augljóst að það var þörf á þessu samtali og margt sem brennur á okkur varðandi samfélagið okkar og næstu skref.
Einnig viljum við senda allan okkar styrk og samkennd til þeirra íbúa sem misstu húsin sín í eldgosinu á sunnudag.
Bæjarstjórn Grindavíkur fundaði með ríkisstjórn Íslands í gær og vill ítreka það sem fram kom um mikilvægi þess að ríkisstjórnin leggist á eitt að greiða hratt og örugglega úr brýnum vanda Grindvíkinga. Íbúar Grindavíkur búa á um 1200 heimilum í sveitarfélaginu og teljum við forgangsatriði að leysa húsnæðismál með skjótum hætti.
Það hefur komið skýrt fram að það er stór meirihluti sem vill fá eignirnar sínar greiddar út með forgangs kauprétti á þeim síðar svo að íbúar geti verið sjálfstæðir í sinni ákvarðanatöku um framhaldið. Það er ekki hægt að byggja upp samfélag þar sem íbúar eru tilneyddir til þess að búa á svæðinu í hamförum sem þessum þar sem ekki er vitað hversu langan tíma atburðirnir muni standa yfir. Jafnframt standa íbúar frammi fyrir mikilli óvissu hvað varðar kostnað eigna í Grindavík í ofanálag við útgjöld reksturs heimila fjarri heimahögum og viljum við ítreka mikilvægi þess að ríkisstjórnin leggi fram aðgerðir um greiðsluskjól gagnvart íbúðalánum þeirra.
Það er fullur skilningur á að aðgangur að Grindavík er lokaður íbúum á þessum tímapunkti og líf fólks þarf að vera númer 1, 2, og 3. Í ljósi þess er óásættanlegt að íbúar sjái fréttamenn frá hinum ýmsu miðlum vera í fylgd björgunarsveita í götunum þeirra og fyrir framan húsin sín. Þarna hefði frekar verið hægt að hafa þessa fylgd með íbúum að sækja verðmæti.
Við viljum koma fram þökkum til íbúa sem sáu sér fært að mæta á íbúafundinn í gær og opnað sig um stöðuna. Það er mikilvægt að stjórnvöld sjái að við stöndum saman og að við viljum hafa val.
Bæjarstjórn Grindavíkur mun áfram standa vörð um hagsmuni íbúa Grindavíkur og þrýsta á að ríkisstjórn Íslands grípi okkur.Við munum halda áfram að tala máli okkar Grindvíkinga og upplýsa ykkur um framganginn.
Kær kveðja,
fulltrúar bæjarstjórnar