Ekki hægt að bera stöðu gesta við skyldur bæjarfulltrúa
Gestir á fundum bæjarráðs hafa allt aðra stöðu en bæjarfulltrúar. Ekki er hægt að bera stöðu gesta við skyldur bæjarfulltrúa, segir m.a. í svörum Friðjóns Einarssonar, formanns bæjarráðs Reykjanesbæjar, sem hann lagði fram á síðasta fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar vegna fyrirspurnar Margrétar Þórarinsdóttur bæjarfulltrúa á bæjarráðsfundi þann 10. febrúar 2022. Svör Friðjóns voru í þremur liðum og eru orðrétt hér á eftir:
1. Formaður bæjarráðs ákveður dagskrá og fundarstað vegna funda bæjarráðs. Bæjarfulltrúar skulu mæta á fundarstað. Ef bæjarfulltrúar geta ekki mætt á áðurnefndan fundarstað skulu þeir kalla inn varamann. Fundur bæjarráðs var haldinn í Merkinesi.
Bæjarfulltrúi hafði óskað eftir heimild til að vera á „Teams“ á fundinum vegna aðstæðna sinna en viðkomandi var í einangrun vegna smits. Þeirri ósk var hafnað af fyrrgreindum ástæðum.
Bent var á að viðkomandi bæjarfulltrúi yrði að kalla inn varamann. Að heimila viðkomandi beiðni var fordæmisgefandi og ekki heimil.
2. Gestir á fundum bæjarráðs hafa allt aðra stöðu en bæjarfulltrúar. Ekki er hægt að bera stöðu gesta við skyldur bæjarfulltrúa.
3. Allir fundir bæjarráðs og bæjarstjórnar Reykjanesbæjar eru löglega boðaðir og haldnir skv. þeim lögum og skyldum sem um fundina gilda.
Síðustu 2 ár hafa verið lærdómsrík fyrir sveitastjórnir landsins og ljóst að endurskoða þarf samþykktir sveitarstjórna um allt land í ljósi þess.