Ekki fjarlægt nema það fljóti
Sementsflutningaskipið Fjordvik, sem strandaði í Helguvík aðfaranótt sl. laugardags, verður ekki fjarlægt af strandstað fyrr en tryggt verður að skipið fljóti. Skipið er nokkuð laskað en kafarar gátu fyrst skoðað botn skipsins á mánudag. Þá voru teknar myndir af skemmdum og sérfræðingar hafa síðan þá unnið að því að kortleggja þær og meta ástand skipsins með tilliti til þess að fjarlægja skipið af strandstað.
Þegar blaðið fór í prentun síðdegis á þriðjudag hafði a.m.k. 80 tonnum af eldsneyti verið dælt úr skipinu á strandstað en restin var í tönkum sem ekki var hægt að komast að með góðu móti þar sem þeir voru umflotnir sjó. Talsverður sjór er í skipinu en göt voru bæði á vélarrými skipsins og lestum.
Skipið var að koma með 1600 tonn af sementi sem átti að skipa upp í Helguvíkurhöfn. Í áhöfn skipsins voru fjórtán skipverjar og þá var lóðs frá Reykjaneshöfn kominn um borð þegar skipið strandaði í vonskuveðri. Þyrlur Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út og bjargaði áhöfn TF-GNÁ mönnunum fimmtán og flaug þeim í land. Björgunin var þrekvirki og unnin við erfiðar aðstæður eins og Guðmundur Ragnar Magnússon, stýrimaður og sigmaður á þyrlunni, lýsir í viðtali við Víkurfréttir. Guðmundur er úr Garðinum en býr í Keflavík með fjölskyldu sinni.
Sjópróf vegna strandsins hafa ekki farið fram það staðfestir Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafnar. Jón Pétursson, hafnsögumaður, fór út í Fjordvik og var um borð þegar skipið strandaði. „Ég myndi ekki vilja leggja það á minn versta óvin að lenda í þessum aðstæðum. Þetta er mikið áfall sem maður verður fyrir og sem maður verður að vinna sig úr á næstunni með hjálp góðra manna,“ sagði hann í færslu á Facebook.
Guðmundur, sigmaður á þyrlunni, hrósaði Jóni í viðtali við Víkurfréttir. Jón aðstoðaði Guðmund sem kom harkalega niður í skipið úr þyrlunni og braut tvö rifbein og brákaði það þriðja. Þá hafi Jón séð um fjarskipti milli skips og björgunarþyrlunnar og auðveldað þannig björgunarstörf þar sem tungumálaörðugleikar torvelduðu samskiptin.