Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 3. maí 2001 kl. 14:00

„Ekki félagafrelsi nema í orði“

Átta leiðbeinendur á leikskólanum Tjarnarseli í Keflavík sendu Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis bréf í febrúar þar sem þær kröfðust úrsagnar úr félaginu og óskuðu jafnframt eftir inngöngu í Starfsmannafélag Suðurnesja.
Engin viðbrögð bárust frá verkalýðsfélaginu og þegar konurnar leituðu eftir svörum frá félaginu var þeim sagt að þær gætu ekki skipt um félag. Dæmi eru um að leiðbeinendur á leikskólum séu félagar í Starfsmannafélagi Suðurnesja en þó er leiðbeinendum á Tjarnarseli meinað að ganga úr VSFK. „Okkur finnst þetta ekki vera félagafrelsi nema rétt í orði. Þegar við óskuðum eftir svörum var okkur sagt það að verkalýðsfélagið ætti okkur og við gætum ekki skipt um félag“, segir leiðbeinandi á Tjarnarseli. Konurnar sögðust vita til þess að sama væri í gangi á fleiri leikskólum í bænum og fannst tími kominn til að VSFK útskýrði fyrir félagsmönnum sínum réttindi þeirra. Einn leiðbeinandi á Tjarnarseli hefur verið félagslaus frá því hún byrjaði í september. „Ég hef sótt um inngöngu í Starfsmannafélag Suðurnesja og hefur verið sagt að ég fái það. En Verkalýðsfélagið tekur af mér gjöld en þar er ég samt ekki skráður félagi. Ég veit ekkert hvar ég stend.“
Guðrún Ólafsdóttir varaformaður VSFK segir að hjá félaginu hafi orðið vart við óróleika hjá örfáum einstaklingum sem vilja flytja sig yfir í Starfsmannafélag Suðurnesja. „Mjög gott samstarf er við trúnaðarmenn og annað starfsfólk á leikskólunum, og þær eru mjög virkar í samningagerð. Vinna þeirra hefur verið til fyrirmyndar t.d. í starfsmati sem lauk nú nýverið.“ Guðrún segir félagið hafi gert kjarasamninga við Reykjanesbæ og áður Keflavíkurbæ í áraraðir en í samningnum er svokallað forgangsréttarákvæði. „Þeir sem ráða sig í tiltekin störf hafa verið ráðnir samkvæmt þeim samningi. Það hafa verið miklar umræður undanfarið um félagsaðild og samningsrétt á milli ASÍ félaga og BSRB félaga, þar eru menn vonandi að ná sáttum. Það hefur reynt á það með dómi að forgangréttarákvæðið skyldaði fólk til að greiða í ákveðið félag, í það félag sem samdi fyrir það. Þetta gerðist fyrir nokkrum árum á Siglufirði. Ekki hefur reynt á með dómi þar sem félög hafa haft klárt forgangsréttarákvæði í samningum sínum. Samningar félaganna hafa verið nokkuð sambærilegir hvað réttindi og laun varðar, það þarf að skoða alla hluti sem samningar gefa þegar samanburður er gerður. Það er ekki ætlun okkar að standa í illdeilum við félaga okkar um félagsaðild“, segir Guðrún.
Ragnar Örn Pétursson, formaður Starfsmannafélags Suðurnesja segir að í félaginu séu nokkrir leiðbeinendur á leikskólum. Hann segir félagið hafa rétt til þess að semja við bæinn um kjör leiðbeinanda á leikskólum. „Laun leiðbeinanda í VSFK og þeirra sem eru í félaginu hjá okkur eru þau sömu en við förum eftir sömu launatöflu en gerum sérstaka kjarasamninga fyrir félagsmenn okkar. Þessar konur eru orðnir félagar í okkar félagi og við munum berjast fyrir þeirra rétti. Það á að vera hægt að skipta um félag þegar kjarasamningar eru lausir og því ættu félagaskipti að geta farið fram núna því leiðbeinendur eru með lausa samninga. Ef Reykjanesbær fer ekki að skila okkur gjöldum sem þeir innheimta mánaðarlega af félögum í okkar félagi höfum við ekki aðra kosti en að senda lögfræðing okkar í málið “ segir Ragnar.
Hjörtur Zakaríasson, starfsmannastjóri hjá Reykjanesbæ sagði málið vera í athugun hjá Reykjanesbæ en best væri ef verkalýðsforingjarnir gætu samið sín á milli.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024