Ekki berggangur að myndast við Grindavík
Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, segir að ekkert bendi til þess að berggangur sé að verða til við Grindavík. Jarðskjálftar síðustu sólarhringa raða sér nokkuð línulega í sprungustefnuna SV-NA, frá sunnanverðum Þorbirni í áttina að Stóra Skógfelli. Á fésbókinni er til síðan „Jarðsöguvinir - Friends of Historical Geology“ og þar varpar Ellert Grétarsson fram þessari spurinngu, hvort berggangur sé að myndast.
„Það er ekkert í aflögunargögnunum sem sýnir neitt slíkt. Þetta eru að öllum líkindum tektónískir skjálftar, að mestu tengdir flekahreyfingunum, en verða fyrir áhrifum af kvikusöfnuninni, sem er svolítið vestar en þetta. Söfnunin er ótrufluð af skjálftunum. Ef þetta væri gangur þá ætti safnsvæðið að hjaðna, líkt og Báðrarbunga gerði þegar gangurinn hljóp norður í Holuhraun,“ segir Páll Einarsson í svari sínu við spruningunni.
Rólegt hefur verið í jarðlögum við Grindavík í dag. Þrettán skjálftar hafa orðið í nágrenni Grindavíkur, allir frekar smáir.