Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Fimmtudagur 15. mars 2001 kl. 22:00

Ekki alvöruhjónaband í Grindavík

Meirihluti bæjarstjórnar Grindavíkur, sem J-listi Bæjarmálafélags jafnaðar og félagshyggju og Framsóknarflokkur mynduðu í febrúarmánuði 1999, brast á meirihlutafundi í gær, sem var undanfari bæjarstjórnarfunda. Þetta kemur fram á Vísir.is í kvöld.Ákvörðunin um meirahlutaslit var svo tilkynnt í upphafi bæjarstjórnarfundarins, en hann gekk síðan eðlilega fyrir sig. Hörður Guðbrandsson, J-lista og forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, segir ástæðuna trúnaðarbrest og að bæjarfulltrúar J-lista hafi ákveðið að slíta samstarfinu. J-listi á 3 bæjarfulltrúa en B-listi 2, en í minnihluta er D-listi með 2 bæjarfulltrúa.

B og D-listar mynduðu meirihluta eftir kosningarnar 1998, en sá meirihluti féll einnig vegna mannaráðninga. Þáverandi formaður Sjálfstæðisfélags Grindavíkur vildi fá embætti forstöðumanns áhaldahúss Grindavíkurbæjar, sem ekki var laust, og því hefði þurft að segja upp þáverandi forstöðumanni. Það vildu Framsóknarmenn ekki fallast á. Þá hafði meirihlutasamstarf þessara flokka staðið óslitið í 17 ár.

Hallgrímur Bogason, oddviti B-lista og fráfarandi varaforseti bæjarstjórnar, segir að væntanlega fari Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur að ræða saman um myndun meirihluta, en það sé ekki komið á koppinn. Ástæðuna fyrir klofninginum nú segir Hallgrímur vera þá að til hafi staðið að kjósa til stjórnarsetu í Hitaveitu Suðurnesja, í fyrsta sinn, en fyrir Alþingi liggur tillaga um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja.

"Okkur þótti hag Grindavíkur betur borgið þannig, en að þar sæti oddviti Samfylkingarinnar á staðnum, Hörður Guðbrandsson sem er forseti bæjarstjórnar, en þar hefur setið fyrir okkur Ómar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, sem hefur verið stjórnarformaður Hitaveitunnar. Það er kannski ekki óeðlilegt að J-listinn sækist eftir þessu embætti því í stjórn Hitaveitunnar er töluverð pólitík, og svo er Hafnarfjörður að bætast í hópinn.
Þetta meirihlutasamstarf listanna hefur alla tíð verið stirt, ekkert alvöruhjónaband. J-listamenn hafa lengi verið í minnihluta og ætluðu að bylta miklu á skömmum tíma og væntingar þeirra miklar," segir Hallgrímur Bogason.

Ómar Jónsson var kjörinn í stjórn Hitaveitu Suðurnesja á bæjarstjórnarfundinum. Næsti bæjarstjórnarfundur er um miðjan aprílmánuð. Hörður Guðbrandsson, J-lista, segir að fyrir ári síðan hafi fyrst borið á trúnaðarbresti milli bæjarfulltrúa framsóknarmanna og þeirra. Það sé búið að endurtaka sig með þeim afleiðingum að upp úr slitnaði. "Það eru ýmiss brot á málefnasamningi flokkanna sem verða til þess að þetta samstarf springur, en kornið sem fyllti mælinn var að þeir ákváðu að styðja minnihlutamann í stjórn Hitaveitu Suðurnesja. Það eru ýmis teikn á lofti um það að framsóknarmennirnir fari aftur í eina sæng með sjálfstæðismönnum. Við höfum ekki talað við
sjálfstæðismennina enn sem komið er," segir Hörður Guðbrandsson.

"Við ætlum að leyfa mönnum að kólna áður en við ræðum við þá og ekki hlaupa að neinu. Hvorki Hörður né Hallgrímur hafa haft samband við mig,"segir Ólafur Guðbjartsson, oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Grindavíkur.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024