Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ekki alvarlegar athugasemdir
Fimmtudagur 4. febrúar 2010 kl. 12:35

Ekki alvarlegar athugasemdir

"Það er enginn að segja að bréfið sé hrein syndakvittun en þetta eru ekki alvarlegar athugasemdir," segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar í Fréttablaðinu í dag, um bréf sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur sent vegna fjárhagsáætlunar 2010.

Í bréfinu kemur fram að ekkert verði aðhafst að svo stöddu, en varnaðarorð um forsendur fjárhagsáætlunarinnar og fjárhagsstöðu ítrekuð og óskað sé eftir ársfjórðungslegum upplýsingum um stöðuna. Það segir Árni eðlilegt.
"Mér finnst ekki sanngjarnt að það sé horft á að við séum í einhverri gjörgæslu eða undir einhverri smásjá," segir Árni. Eðlilegt sé að menn vilji fylgjast með því að hagræðing í rekstri gangi eftir. Hann vill ekki kvitta upp á að offjárfesting hafi verið í Reykjanesbæ síðustu ár.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bæjarfélaginu hvorki veitt syndakvittun né sett í gjörgæslu


Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir í viðtali við Pétur Gunnarsson í Fréttablaðinu í dag að Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga hafi hvorki gefið bæjarstjórninni syndakvittun né sett fjármál bæjarins í gjörgæslu með bréfi þar sem tilkynnt er um að nefndin óski eftir ársfjórðungslegum upplýsingum um rekstur sveitarfélagsins í ár.


Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) hefur sent Reykjanesbæ bréf vegna fjárhagsáætlunar 2010 og ætlar ekki að hafast að í málum sveitarfélagsins að svo stöddu en ítrekar varnaðarorð um forsendur rekstraráætlunar og fjárhagsstöðu. Þrátt fyrir áætlanir um sjö milljarða hagnað árið 2009 vegna sölu á eignum í HS Orku séu skuldir yfir eðlilegum mörkum. Kallað er eftir ársfjórðungslegum upplýsingum um rekstur þessa árs með samanburði við rekstraráætlun 2010.


"Mér finnst ekki sanngjarnt að það sé horft á að við séum í gjörgæslu eða undir einhverri smásjá," segir Árni Sigfússon. "Niðurlag bréfsins er að það verði ekki aðhafst frekar, að svo stöddu. Það eru ítrekuð varnaðarorð um óvissu í rekstrarforsendum og fjárhagsstöðu. Það er niðurstaða þessa erindis."


Hvorki syndakvittun né í gjörgæslu


"Það er bara eðlilegt að menn fái ársfjórðungslega upplýsingar," segir Árni. "Það er enginn að segja að bréfið sé hrein syndakvittun en þetta eru ekki alvarlegar athugasemdir. Það er eðlilegt að nefndin óski eftir þessum upplýsingum. Tekjurnar sem við áætlum að komi inn á næstu árum eru meðal forsendna fyrir bættri rekstrarstöðu. Það er eðlilegt að menn vilji fylgjast með því að hagræðing í rekstri gangi eftir."


Eftirlitsnefndin minnir á nauðsyn þess að peningalegar eignir, sem fengust við 11,7 milljarða króna sölu eigna í HS Orku, verði nýttar til að greiða niður skuldir.


"Við metum eftir aðstæðum hvað er eðlilegast að greiða niður," segir Árni. "Ég hef bent á að meðal þeirra eigna er 6,3 milljarða króna skuldabréf sem greiðist upp árið 2016. Við höfum val um hvort við seljum það bréf eða eigum það og söfnum á það vöxtum. Við höfum talið skynsamlegra að geyma það en selja." Árni segist ekki túlka bréf nefndarinnar þannig að hún sé að leggja að sveitarfélaginu að selja skuldabréfin. "Ég held ekki að hún sé að leggja áherslu á það, heldur á að það fjármagn, sem við höfum, verði frekar nýtt í að greiða skuldir en að fara í nýjar fjárfestingar. Við tökum undir það."


Í ykkar áætlun var byggt á forsendum um fjölgun starfa, fjölgun íbúa og auknar skatttekjur. Er slík bjartsýni réttlætanleg í miðri kreppunni?


"Við gerum ráð fyrir að árið 2010 verði erfitt vegna þess að mörg verkefni sem eru komin af stað eru ekki komin að fullu til framkvæmda. Við gerum ráð fyrir að 60% af þeim störfum sem hér eiga eftir að verða til á svæðinu á næstu þremur árum komi til fólks sem býr í Reykjanesbæ. Við gerum áætlun um að á næstu þremur árum aukist skatttekjur um 1,5 milljarða, sem hefur mikil og jákvæð áhrif á reksturinn. Capacent hefur unnið nýja greiningu á áhrifum nýrra atvinnuverkefna á skatttekjur Reykjanesbæjar. Þær niðurstöður benda til að tekjuaukningin verði umtalsvert meiri en þeir 1,5 milljarðar sem við gerum ráð fyrir. Það er afskaplega ánægjuleg niðurstaða en hún er sýnd veiði en ekki gefin. Við teljum að við höfum farið varlega í sakirnar í okkar áætlun og höldum okkur við hana."


Þau nýju verkefni sem Árni vísar í að muni standa undir auknum umsvifum og skatttekjum á næstunni eru álver Norðuráls í Helguvík, gagnaver Verne Holding í Ásbrú, sjúkrahús á Ásbrú, ýmis verkefni tengd flugþjónustu og framkvæmdir vegna væntanlegrar kísilverksmiðju. Hann segir að þarna sé farið varlega í sakirnar. Til dæmis sé ekki gert ráð fyrir auknum tekjum af ferðaþjónustu og ýmsum öðrum verkefnum sem undirbúin hafa verið á síðustu árum.


"En við gerum ráð fyrir að byggingarframkvæmdir við álverið í Helguvík hefjist á vormánuðum og að fólk verði ráðið í tengslum við það. Það er búið að ljúka við fjármögnun sjúkrahússins á Ásbrú og byggingarframkvæmdir eru að fara af stað. Menn þekkja hvar gagnaverið stendur; það er verið að ljúka frágangi fjárfestingarsamnings vegna þess á Alþingi. Allt eru þetta verkefni sem líta ágætlega út og eiga ekki að tefjast frekar."


Einhver áhætta um hraða uppbyggingarinnar


Það er margt óljóst varðandi þessa uppbyggingu. Orkusölusamningar liggja ekki fyrir og virkjanaleyfi vegna stækkunar Reykjanesvirkjunar hefur ekki verið gefið út. Er réttlætanlegt við þær aðstæður að leggja tekjur af þessum verkefnum til grundvallar í fjárhagsáætlun?


"Þá má spyrja ríkisstjórnina og Seðlabankann á hverju þeir byggi þær forsendur að hér rísi efnahagur á forsendum álvers í Helguvík. Ef við trúum ekki á að þetta sé að gerast veit ég ekki hverjir eiga að gera það. Við höfum verið að berjast fyrir þessu í fimm ár.


Hins vegar eru fjórir áfangar í álverinu. Fyrsti áfangi er 90.000 tonn og þar eru menn búnir að leggja hlutina saman og sjá tækifæri til að fara af stað. Það er haft eftir forsvarsmönnum Norðuráls. Það er þeirra að meta aðstæður og forsendur fyrir sínum ákvörðunum og þeir treysta sér til að fara af stað. Menn taka einhverja áhættu af því hversu hratt þeir geta byggt upp og það er Norðurál sem þarf að taka afstöðu til þess."


Árni segist telja að gengið verði frá orkusölusamningum á næstu vikum vegna fyrstu áfanga álversins.


Þegar horft er til baka í ljósi fjárhagsstöðu bæði Reykjanesbæjar og margra annarra sveitarfélaga: Hvar var farið of geyst og hvað hefðu menn átt að gera öðruvísi?


"Ég tel að við höfum tekið réttar ákvarðanir í upphafi. Við búum á láglaunasvæði. Við stóðum frammi fyrir spurningunni: Ætlum við að gera þetta að annars eða þriðja flokks samfélagi, sem veitir lélega þjónustu, eða ætlum við að byggja upp auknar skatttekjur? Við ákváðum að byggja upp nýjar skatttekjur og draga fram kosti svæðisins til að taka á móti nýjum atvinnutækifærum. Það hefur kostað fjárfestingar. Þær eru að skila þeirri niðurstöðu að stór verkefni eru að koma inn og þau munu snúa við rekstri sveitarfélagsins. Út á það hefur þetta alltaf gengið. Auðvitað er ákveðin áhætta tekin og við höfum orðið fyrir áföllum. Við bjuggumst ekki við því að 900 manns misstu störf hjá Varnarliðinu. Það hefur gengið ágætlega að breyta því áfalli í tækifæri. Við áttum líka ekki von á öðru en hugmyndir um stálpípuverksmiðju gætu gengið eftir en þau fóru forgörðum."


Ekki offjárfesting


Árni segist ekki kvitta undir það að það hafi verið offjárfesting í Reykjanesbæ. Bærinn hafi fjárfesta í því að byggja upp stuðning við fjölskyldufólk, góða skóla og vistlegt og fjölskylduvænt umhverfi. Þegar nefnt er að fjölmargar íbúðir standi auðar í bænum, bæði á Vallarsvæðinu og í öðrum hverfum, bendir hann á að sú fjárfesting þýði að Reykjanesbær geti nú tekið við 1.700 nýjum íbúum án þess að það þurfi að kosta miklu til við innviði samfélagsins. Sú fjölgun muni verða í tengslum við álverið í Helguvík og önnur verkefni, sem Suðurnesjamenn bíða nú eftir að verði að veruleika.


Heimild: Fréttablaðið