Ekkert Snapp úr Svarta dauða
- Gæi hættir að snappa á ferðinni eftir athugasemd bæjarfulltrúa
Kolbrún Jóna Pétursdóttir, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ og starfsmaður hjá embætti lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu, sér ástæðu til að gera athugasemd við Snapchat-stjörnuna á Svarta dauða, Garðar Viðarsson, á fésbókinni í gær. Kolbrún deilir viðtali Víkurfrétta við Garðar, eða Gæa eins og hann er kallaður.
„Getur hann í það minnsta ekki sleppt því að snappa og keyra... ? Eigum við að bíða bara eftir að hann dúndri á aðra farþega sem eru svo óheppnir að vera á sama stað og tíma og hann þegar að það gerist? 👿“
Garðar fékk veður af þessari færslu í gær og lætur vænan pakka vaða á Snapchat þar sem hann veltir upp málinu frá ýmsum hliðum.
„Það er alltaf svolítið til af viðkvæmu fólki sem má ekkert sjá, þá fer það að hágráta,“ segir Gæi fljótlega en bætir svo við:
„Ég ætla að reyna að halda friðinn, hvernig sem ég fer að því. Ég hef svo gaman af þessu Snappi að ég get eiginlega ekki hætt þessu.“
Áfram heldur Gæi að velta fyrir sér athugasemdinni sem Kolbrún birti í opinni færslu á fésbókinni sinni. „Ég veit ekki hvað ég á að segja. Það er kannski bara best að þegja bara. Ég hef ekkert verið mikið að því í gegnum tíðina, hahaha…“
Undir lokin kemur svo yfirlýsing frá Snapchat-stjörnunni: „En nú er ég hættur. Ég ætla ekki að snappa meira undir stýri. Ef þið þekkið þessa konu þá getið þið skilað til hennar að ég sé hættur þannig að hún getur sofið róleg í nótt.“
Garðar áttar sig á því að hann hafði gengið of langt í yfirlýsingunni um að hann sé hættur að Snappa undir stýri: „Nú er ég hættur að snappa undir stýri. Ekki undir stýri, heldur á ferðinni.“
Horfa má á pælingar Garðars í myndskeiðinu hér að neðan.