Ekkert skólastarf í Grindavík á næsta skólaári
Ekki verður skólastarf í Grindavík næsta skólaár. Safnskólar fyrir leik- og grunnskólabörn verða lagðir af og öll börn sæki skóla sem næst sínu heimili. Foreldrar og forráðamenn þurfa að sækja um skólavist. Unnið er að því að tryggja leikskólavist barna frá Grindavík með samkomulagi við sveitarfélög. Þetta var niðurstaða bæjarstjórnar Grindavíkur í gær en greint er frá málinu á vef Grindavíkurbæjar.
Bærinn mun uppfylla fræðsluskyldu sína með samningum við önnur sveitarfélög og greiða fyrir þjónustu þeirra við leik- og grunnskólabörn. Unnið er að því að foreldrar og forráðamenn hafi sveigjanleika við val á leik- og grunnskóla fyrir sín börn með tilliti til aðstæðna hverju sinni, félagslegra tengsla, námsþarfa o.s.frv.
Sálfélagslegur stuðningur verður í boði fyrir börn og ungmenni og móttökuáætlanir verða í leik- og grunnskólum. Eftirfylgni verður með skólagöngu og þjónustu við grindvísk börn og fylgst verður með líðan þeirra og skólasókn. Með ákvörðun sinni vill bæjarstjórn stuðla að stöðugleika í lífi barna og minnka álag á fjölskyldur frá Grindavík. Þá er markmiðið að tryggja börnum og ungmennum gott umhverfi fyrir leik og nám, vinna gegn félagslegri einangrun og tilfinningalegum erfiðleikum.
Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, segir niðurstöðuna óumflýjanlega í ljósi krefjandi aðstæðna. Mikilvægt sé að eyða eins mikilli óvissu og frekast er unnt, svo Grindvíkingar geti skipulagt og tekið viðeigandi ákvarðanir fyrir sig og sínar fjölskyldur. Hún bendir á, að nú þegar sæki meirihluti grindvískra leik- og grunnskólabarna skóla í sínu nærumhverfi og reynslan af því hafi almennt verið góð.
„Safnskólafyrirkomulagið var viðbragð við neyðarástandi sem skapaðist með rýmingu bæjarins í nóvember, en var ekki hugsað sem framtíðarskipulag skólastarfs. Áhrif náttúruhamfaranna á líf bæjarbúa hafa verið gríðarleg og nú blasir nýr veruleiki við okkur – uppkaup ríkisins á fasteignum eru hafin, lögheimilisflutningum frá Grindavík fjölgar og fyrirsjáanlegt tekjufall sveitarfélagsins er mikið. Það er okkar skylda að bregðast við og búa svo um hnútana fjárhagslega að bærinn okkar geti tekið við sér hratt og örugglega þegar aðstæður leyfa. Farsæld barna og ungmenna er í algjörum forgangi og ákvörðun um skólahald er tekin á þeim grundvelli“ segir Ásrún Helga.
Niðurstaðan var kynnt starfsfólki skólanna í dag. Hún felur augljóslega í sér breytingar hjá þeim sem hafa starfað í safnskólum Grindavíkurbæjar en rík áhersla verður lögð á að tryggja réttindi starfsfólks í þeirri vinnu sem er framundan.
Upplýsingafundur verður fyrir foreldra og forráðamenn barna í leik- og grunnskóla, miðvikudaginn 24. apríl kl.17.00 á facebooksíðu Grindavíkurbæjar og á Grindavik.is
Hægt er að senda spurningar fyrir fundinn á [email protected]