Ekkert sem bendir til tengsla á milli skjálfta við Grindavík og á Reykjanesi
Eins og við greindum frá fyrr í dag er aukin skjálftavirkni á Reykjanesi á sama tíma og aðeins hefur dregið úr virkninni við Grindavík. Á samfélagsmiðlum hefur því verið velt upp hvort tengsl séu á milli virkni vestan við Þorbjörn og skjálftanna á Reykjanestá. Víkurfréttir leituðu til náttúruvársérfræðæinga á Veðurstofu Íslands.
„Í augnablikinu er ekkert sem bendir til þess að skjálftarnir á Reykjanestá séu beintengdir atburðunum við Grindavík. Hins vegar er ekki hægt að útiloka það,“ segir Hulda Rós, náttúruvársérfræðingur á vakt hjá Veðurstofu Íslands.
„GPS mælar sýna enga óeðlilega færslu við Reykjanestá eins og er, svo þetta virðist vera „venjuleg“ skjálftahrina eins og af og til verða á þessu svæði,“ segir Hulda Rós jafnframt.