Ekkert óeðlilegt við leigusamninginn, segir bæjarstjóri
Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir ekkert óeðlilegt við leigusamning bæjarins um Reykjaneshöll. Ólafur Thordarsen, bæjarfulltrúi A-lista, gagnrýnir samninginn í Víkurfréttum í gær og segir hann fáranlegan.
„Ég hef alltaf bent á að þessi samningur hallaði mjög á bæjarfélagið og er mun lakari en aðrir sambærilegir samningar. Hann kveður t.d. á um að eina viðhaldið sem átti að lenda á leigusala var fyrstu fimm árin utanhúss. Auðvitað er ekkert viðhald utanhúss fyrstu fimm árin eins og allir ættu að vita. Þessi leigusamningur er fáránlegur,“ segir Ólafur um samninginn.
„Þessi leigsamningur er í raun fjármögnunarleiga þar sem utanhússviðhald og meiriháttar viðhald skyldi gilda fyrstu 5 árin. Þannig var verið að tryggja engir gallar kæmu upp í mannvirkinu sem leigusali, Landsafl ætti að sinna. Leiguverðið tekur mið af því og miðað við þær forsendur er ekkert óeðlilegt við þennan samning sem Landsafl gerði við Reykjanesbæ fyrir 6 árum síðan, “ segir Árni Sigfússon um samninginn.
Varðandi umræðuna um gervigrasið segir Árni:
„Óánægja með gervigrasið kemur ekkert Landsafli við, og lítið slit er komið í grasið. Við erum að skoða leiðir í þessu máli, m.a. kemur til greina að skipta um grasmottuna, án þess að hreyfa undirlagið. Þá væri mögulegt að nýta núverandi mottu í annað. Við leitum að hagkvæmustu og bestu leið. Svör munu liggja fljótlega frammi.“
Mynd: Frá Reykjaneshöll.